Danski orkurisinn Dong Energy skilar eigendum sínum 1,5 milljarði danskra króna, eða rúmum 21 milljarði íslenskra króna, í arð vegna reksturs seinasta árs, og þar af renna rúmir 14 milljarðar til danska ríkisins, sem á 73% hlut í félaginu.

Til stóð að skrá félagið á markað og að ríkið minnkaði hlut sinn í 51% og seldi afganginn á frjálsum markaði, en danski fjármálaráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, sló þeim áformum á frest í lok janúar vegna niðurdrepandi ástands markaða. Greiningaraðilar mátu þá fyrirtækið á 60-70 milljarða danskra króna, en það starfar m.a. í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og Hollandi

Samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins voru heildartekjur Dong Energy í fyrra rúmar 41,6 milljörðum danskra króna, eða 586,5 milljarðar íslenskra króna, en voru 36,5 milljarðar danskra króna árið á undan. EBITDA félagsins var 9,6 milljarðar í fyrra, eða 135,3 milljarðar íslenskra króna, sem er aukning upp á 650 milljónir danskra króna,  eða rúma 9 milljarða íslenskra, á milli ári.

Hagnaður eftir skatta var rúmlega 3,2 milljarðar danskra króna, eða um 45,1 milljarður íslenskra króna, en var rúmir 5 milljarðar danskar krónur árið á undan.

Þau raforkufyrirtæki sem Dong hefur keypt á undanförnum árum, þar á meðal Elsam, Energi E2 og Nesa, ásamt orkufyrirtækjum ýmissa sveitafélaga, eru í fyrsta skipti innifalin í ársreikningunum nú.

Forstjóri á of feitu fóðri?

Stjórnendur félagsins leggja áherslu á að rekstrarhorfur á yfirstandandi ári geti brugðið til beggja vona þar sem rekstur félagsins er afar viðkvæmur fyrir m.a. olíu- og gasverði og veðurfari, enda rekur það vindorkuver víða um lönd. Félagið miðar við að meðalverð olíufatsins verði 80 dollarar á þessu ári og gasverðið verði 34 evrur á hvert Mwh. Olíutunnan fór eins og kunnugt er yfir 109 dollara á mörkuðum í morgun.

„Ég held að 80 dollarar séu ágætis þverskurður af áætlunum greiningaraðila um þróun olíuverðs,” vitnar fréttavefurinn Business.dk í Steen Juul Jensen, næstráðanda fjárfestatengsla hjá Dong.

Ársreikningarnir leiða líka í ljós að forstjóri félagsins, Anders Eldrup, hefur hækkað í launum úr tæpum 65 milljónum íslenskra árið 2006 í 80,3 milljónir árið 2007. Af fréttum danskra fjölmiðla má ráða að þeim þykir Eldrup á heldur góðum fóðrum.