Fyrir skömmu náðist samkomulag um að ljúka máli um samráð röraframleiðenda í Evrópu. Mál sem byrjaði árið 1995 með að Evrópusambandið hóf rannsókn hjá níu evrópskum röraframleiðendum eftir ákæru frá sænska röraframleiðandanum Powerpipe A/S. Powerpipe kærði þessa röraframleiðendur um samráð um að ýta þeim út af markaðnum eftir að fyrirtækið neitaði þátttöku í samráði um verð og markaðskiptingu. Greint er frá þessu í frétt á vef Samorku.

Við rannsókn kom í ljós að hringamyndunin hófst árið 1990 og stóð fram á árið 1996, jafnvel eftir að rannsókn hófst. Fyrirtækin gerðu sig sek um að skipta á milli sín markaðnum, ákveða verð og úthluta hverjir fengju ákveðin tilboð í hitaveiturör. Einnig gerðu þau sig sek um að reyna að ýta keppinauti sem ekki vildi taka þátt út af markaðnum með undirboði og setja þrýsting á efnissala og undirverktaka að skipta ekki við viðkomandi.

EB dæmdi þessa níu röraframleiðendur til greiðslu sektar upp á 690 milljónir danskar krónur í október 1998 eða tæpa sjö milljarða. Strax í kjölfarið kröfðu fjórar stærstu hitaveiturnar í Danmörku í Álaborg, Árósum, Kaupmannahöfn og Óðinsvéum áðurnefnd fyrirtæki og auk þess Dansk Rörindustri A/S um bætur fyrir tap sem þær höfðu orðið fyrir vegna yfirverðs á rörum á því tímabili sem samráð um verð sannanlega fór fram. Eftir að ekki gekk né rak í málinu stefndu hitaveiturnar fyrirtækjunum fyrir dómstóla í febrúar 2001 og kröfðust 270 milljón króna danskra í bætur. Í janúar á þessu ári gerði Dansk Rörindustri A/S samkomulag við Álaborg um að greiða þeim 5 milljónir danskar í bætur. En það var aðeins Álaborg sem hafði gert kröfu á Dansk Rörindustri.

Í júní síðastliðnum staðfestir EB dómstóllinn sektargreiðslurnar frá 1998 og þar á ABB að greiða stærsta hlutann, 525 milljónir danskra króna eða 5,2 milljarða króna, vegna leiðandi hlutverks í samráðinu. Í september síðastliðnum hófust málaferlin í Danmörk með sveitarfélögin fjögur gegn tveimur röraframleiðendum með málsgögn upp á 10 þúsund blaðsíður sem rúmast í 29 möppum. Og í byrjun október síðastliðnum næst samkomulag um 150 milljóna kr. bætur til sveitarfélaganna. Álaborg fær 540 milljónir kr., Kaupmannahöfn 320 milljónir kr., Óðinsvé 540 milljónir kr. og Árósar 100 milljónir kr.