Hingað til lands kom í vikunni leitar og björgunarþyrla frá danska flughernum ásamt 13 manna starfsliði. Ástæða komu dönsku björgunarþyrlunnar er til að auka björgunargetu úr lofti, á og við Ísland, næstu daga.

Frá þessu segir í frétt Landhelgisgæslunnar.

Þetta er gert meðan hluti áhafna Landhelgisgæslunnar sækir þjálfun í flughermi í Frakklandi sem átti að fara fram fyrr á árinu en frestaðist vegna kórónuveirufaraldursins. Danska þyrluáhöfnin verður þyrlusveit Landhelgisgæslunnar til halds og trausts hluta júlímánaðar og hrein viðbót við þyrlur Landhelgisgæslunnar sem munu eftir sem áður vera til taks vegna leitar og björgunar á tímabilinu.

Leitað var til Dana svo tryggja mætti að ávallt væru tvær þyrlur auk tveggja áhafna til taks vegna loftrýmisgæslu og annarra verkefna hér við land á tímabilinu.

„Danir tóku vel í beiðnina sem undirstrikar einstakt samstarf þjóðanna á sviði leitar- og björgunarmála. Rúmt hálft ár er síðan Danir veittu afnot af Hercules flutningavél sem flutti íslenska viðbragðsaðila og búnað vegna björgunarverkefna í kjölfar óveðurs á Norðurlandi í desember 2019. Það er ómetanlegt að eiga slíka samstarfsaðila og Landhelgisgæslan er afar þakklát fyrir velviljann sem Danir hafa sýnt þegar eftir aðstoð þeirra hefur verið leitað,“ segir í frétt Gæslunnar.

Danska áhöfnin hefur fengið kynningu á helstu verkefnum Landhelgisgæslunnar þegar kemur að leit og björgun og kemur til með að æfa hér á landi næstu daga í samstarfi við Landhelgisgæsluna.

Þyrlan sem hingað er komin er af gerðinni EH101 en hún og áhöfn hennar kemur til með að hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Ef til útkalls kemur verður danska þyrlusveitin kölluð út af stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík og hófst fyrsta vaktin á miðnætti. Gert er ráð fyrir að þyrlan verði hér á landi til 17. júlí og verður til taks hluta tímabilsins.