Töluverðar breytingar hafa orðið á eigendahópi Vátryggingafélags Íslands (VÍS). Ákveðnir eigendur eru óánægður með rekstur félagsins eins og lesa má hér . Hugsanlegt er að töluverðar breytingar verði á stjórninni þegar ný verður kjörin á hluthafafundi á þriðjudaginn.

Fyrir einhverja kann það að hljóma undarlega að eigendur séu óánægðir því samkvæmt árshlutauppgjöri, sem birt var í lok síðustu viku, skilaði félagið tæplega 2 milljarða króna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins. Það er ríflega tvöfalt meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra. Þrátt fyrir þetta var uppgjörið talsvert undir væntingum og þá sérstaklega afkoma félagsins á 3. ársfjórðungi. Í umfjöllun Greiningardeildar Arion banka er sagt berum orðum að uppgjörið hafi ekki verið gott „og talsvert undir væntingum okkar og líklega vel flestra á markaði."

„Döpur" afkoma

Bæði afkoma af vátryggingarekstri og af fjárfestingum var undir spá Arion banka. Í vátryggingarekstrinum er helst horft til samsetts hlutfalls, sem er skilgreint sem tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum. Þetta hlutfall var 105,2% á þriðja ársfjórðungi en var 102,7% á sama tímabili í fyrra. Þegar horft er á síðustu 9 mánuði er hlutfallið 104,7% en var 100,8% á sama tímabili í fyrra. Greiningardeild Arion banka spáði því að samsetta hlutfallið yrði 98%. „Breyting á tjónaskuld tryggingafélaganna milli fjórðunga er oftast nær illfyrirsjáanleg og mjög sveiflukennd. Það breytir því þó ekki að afkoma tryggingarekstrar var döpur," segir í umfjöllun Arion banka.

Fjárfestingatekjur VÍS á 3. ársfjórðungi námu rúmum 900 milljónum króna en Arion banki spáði því að þær myndu nema tæpum 1.550 milljónum. „Í ljósi þróunar á innlendum eignamörkuðum, þar sem aðalvísitalan hækkaði um rúm 8% og ríkisskuldabréfavísitölur hækkuðu um 2,5-8% kemur á óvart að fjárfestingaeignir VÍS hafi ekki skilað hærri ávöxtun en 2,77% á fjórðungnum," segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .