Dóra Sif Tynes hdl. hefur snúið aftur til starfa hjá ADVEL lögmönnum en hún gegndi starfi forstöðumanns lagaskrifstofu EFTA í Brussel frá 2013 til 2016. Dóra Sif hefur sérhæft sig í Evrópu- og EES rétti og veitt bæði stjórnvöldum og fyrirtækjum ráðgjöf á því sviði. Hún hefur verulega reynslu af málflutningi bæði fyrir EFTA dómstólnum og dómstólum ESB og víðtæka reynslu á sviði samkeppnis- og fjarskiptaréttar, ríkisaðstoðarreglna og fjármála- og verðbréfamarkaðsréttar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Advel.

„Dóra Sif lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands 1997 og meistaraprófi í Evrópurétti og samanburðarlögfræði frá European University Institute í Flórens á Ítalíu árið 2000. Hún hefur ritað margar fræðigreinar á sviði Evrópu- og EES réttar og flutt fjölda fyrirlestra og erinda um EES samninginn einkum í Bretlandi á árinu 2016. Hún hefur einnig sinnt stundakennslu í Háskólanum í Reykjavík og hjá European Institute of Public Administration í Luxemborg.  Þá hefur hún einnig stundað rannsóknir á sviði ríkisaðstoðarreglna og er meðhöfundur að handbók um ríkisaðstoð við fjármálafyrirtæki sem gefin verður út í Bretlandi á vormánuðum.

Dóra Sif hefur verið meðeigandi að ADVEL lögmönnum frá árinu 2011,“ segir í tilkynningunni.