Dóra Sif Tynes, héraðsdómslögmaður, hefur bæst í hóp eigenda lögfræðiþjónustunnar ADVEL. Sérsvið Dóru Sifjar eru Evrópu- og EES réttur, samkeppnisréttur og ríkisaðstoðarreglur auk fjarskiptaréttar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Dóra Sif hefur undanfarin ár rekið eigin lögmannsstofu, en var áður framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Teymis hf. þar sem hún hafði umsjón með öllum lögfræðimálefnum samstæðunnar og samskiptum við eftirlitsaðila og kauphöll. Þar áður starfaði Dóra Sif hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel þar sem hún annaðist málflutning fyrir hönd stofnunarinnar bæði fyrir Evrópudómstólnum og EFTA dómstólnum.

Dóra Sif lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1997 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1998. Árið 2000 lauk Dóra Sif meistarprófi í Evrópurétti og samanburðarlögfræði frá European University Institute í Flórens á Ítalíu. Dóra Sif hefur ritað fjölda fræðigreina á sviði Evrópu- og EES-réttar.

Dóra Sif er einn fremsti lögmaður landsins á sínum sérsviðum og það er mikill fengur í henni fyrir Advel. Hún hefur mikla og fjölbreytta reynslu, sem mun nýtast vel viðskiptavinum Advel á komandi árum.  Stjórnendur og starfsmenn bjóða Dóru Sif velkomna í hópinn,“ segir í tilkynningu.