Þýski netbankinn Comdirect hefur fyrstur þýskra banka hleypt af stokkunum nýrri kynslóð netbanka sem byggir á heimilisfjármálahugbúnaði Meniga. Þjónustan gengur undir nafninu „Persönlicher Finanzmanager” og er þegar aðgengileg gegnum netbanka Comdirect. Comdirect er dótturfyrirtæki Commerzbank. Viðskiptavinir hans eru rúmlega 1,7 milljónir talsins. Bankinn er fyrsta val þeirra sem kjósa að nýta sér einkabankaþjónustu gegnum netið. Vefur bankans er jafnframt einn mest heimsótti vefur Þýskalands en síðuflettingar á honum eru um 200 milljónir á mánuði. Með samningnum við Comdirect opnast dyr um 10 milljón viðskiptavina banka sem nota búnað Meniga.

Himinlifandi Þjóðverjar

„Við erum himinlifandi yfir að vera fyrsti bankinn í Þýskalandi til að bjóða upp á heimsklassa heimilisfjármálalausn,“ segir Sabine Munster, framkvæmdastjóri hjá Comdirect, í tilkynningunni. Hún bendir á að netbankinn hafi um langa hríð verið leiðandi á sviði nýsköpunar og tækni í bankageiranum og undirstriki útgáfa „Persönlicher Finanzmanager“ það að bankinn ætli að vera í fremstu röð.

Viðskiptavinir unnu að aðlögun hugbúnaðarins

Fram kemur í tilkynningu að Meniga og Comdirect hafa í sameiningu unnið að því að aðlaga lausn Meniga að þýskum markaði. Þá tóku viðskiptavinir bankans þátt í þróun „Persönlicher Finanzmanager“ en óskir þeirra réðu miklu um það hvernig fjármálahugbúnaður var aðlagaður að þýskum markaði.

Í tilkynningunni segir m.a. að á meðal nýjunga í „Persönlicher Finanzmanager“ er sjálfvirk flokkun og greining útgjalda, millifærslna og úttekta viðskiptavina, sett fram á myndrænan, skemmtilegan og skýran hátt. Viðskiptavinir geta fyrirhafnarlítið séð hversu miklu þeir eyða og í hvað, sett sér markmið, fengið sendar tilkynningar um árangur sinn og margt fleira. Þá hefur Meniga sérsmíðað ýmsar nýjar einingar sem falla að þýskum markaði og þörfum bankans.