Actavis Bulgaria, dótturfyrirtæki samheitalyfjafyrirtækisins Actavis Group hf., hefur samþykkt að selja dýralyfjaeiningu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá móðurfélaginu til Kauphallar Íslands.

?Viljayfirlýsing um söluna var gerð í febrúar við búlgarska lyfjafyrirtækið Biovet AD Peshtera, en um er að ræða framleiðslu á virkum efnum til lyfjagerðar (API), að stærstum hluta fyrir dýralyf. Actavis mun reka hluta af verksmiðjunni áfram, sem tengist framleiðslu á fullunnum lyfjum. Fjárhagsupplýsingar varðandi söluna eru ekki gefnar upp en búast má við að salan hafi óveruleg áhrif á starfsemi og rekstrarniðurstöðu Actavis á árinu 2005," segir í tilkynningunni.

Halldór Kristmansson, talsmaður Actavis, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að sala starfseminnar sé í samræmi við yfirlýsta stefnu félagsins um að selja einingar sem ekki falla að kjarnastarfsemi Actavis.

Áreiðanleikakönnun vegna sölunnar er lokið og hefur kaupsamningur verið undirritaður, segir í tilkynningunni.