Farne, dótturfélag Alfesca í Skotlandi, sópaði til sín verðlaunum þegar hin virtu matvælaverðlaun ?Food from Britain? voru afhent við hátíðlega athöfn á Savoy-hótelinu í London í desember síðastliðnum segir í frétt frá Alfesca.

Farne hlaut fern verðlaun. Var félagið útnefnt útflytjandi ársins í Skotlandi (Scottish Exporter of the Year), útflytjandi ársins í frystum og kældum matvörum (Frozen and Chilled Exporter of the Year), útflytjandi ársins í vörumerkjum stórmarkaða (Private Label Exporter of the Year) og útflytjandi ársins í flokki drykkja og matvara (Food and Drink Exporter of the Year).

Farne, sem rekur fullkomna vinnslustöð í Duns í Skotlandi, er leiðandi í framleiðslu á reyktum laxaafurðum í Bretlandi. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 600 manns.

Um þriðjung sölutekna Farne má rekja til útflutnings en útflutningur félagsins hefur aukist um 50% milli ára og á eftir að eflast á næstu misserum segir í fréttinni.