Promens hf., dótturfélag Atorka Group hf. hefur í dag 19 júlí gengið frá samningum við Low and Bonar PLC um kaup á Bonar Plastics, plasteiningu Low and Bonar. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki hluthafafundar í Low and Bonar PLC sem haldinn verður í síðari hluta ágúst. Kaupin eru gerð í náinni samvinnu við Atorka Group hf.

Með kaupunum verður til öflugt alþjóðlegt félag með starfsemi í 12 löndum, í þrem heimsálfum. Félagið verður hið stærsta sinnar tegundar í heiminum. Um verður að ræða eina stærstu fyrirtækjasamstæðu í eigu Íslendinga í framleiðslu á iðnaðarvörum. Gert er ráð fyrir því að velta hennar verði um 140 milljónir Evra og EBITDA milli 12 og 13 milljónir Evra. Starfsmenn samstæðunnar verða um 1.250 og fer starfsemin fram í 19 verksmiðjum í 12 löndum auk söluskrifstofa í Hong Kong, Kína og Víetnam. Gert er ráð fyrir töluverðum samlegðaráhrifum í hinu sameinaða fyrirtæki sem ásamt sterkri markaðsstöðu félaganna og öflugum tæknigrunni gefur möguleika á innri og ytri vexti meðal annars bæði í Austur Evrópu og Asíu.

Bonar Plastics

Bonar Plastics er ein af þremur einingum Low and Bonar PLC sem skráð er í Kauphöllinni í London. Bonar Plastics sérhæfir sig í hverfissteyptum vörum úr plasti. 65% af sölu félagsins eru vörur sem framleiddar eru fyrir aðra framleiðendur á iðnaðarvörum (e. custom moulding) og er félagið stærsta fyrirtæki á því sviði í heiminum og eina fyrirtækið sem er með starfsemi bæði í Evrópu og Norður Ameríku. Meðal viðskiptavina félagsins á þessu sviði eru meðal annarra DaimlerChrysler, Catepillar, John Deere, Peugeot, Renault og Volvo 35% af sölu félagsins er sala á eigin vörum, einkum kerjum og tönkum fyrir geymslu og flutninga á efnum fyrir efna-, lyfja og matvælaiðnað. Markaðsstaða Bonar Plastics er mjög sterk og byggir meðal annars á því að fyrirtækið er tæknilega mjög framarlega. Auk þeirra tæknistarfsemi sem tengist hverri verksmiðju þá starfsrækir félagið fjögur vöruþróunar- og tæknisetur í tengslum við verksmiðjur fyrirtækisins í Hockenheim, Deventer, Bretange og Ridgefield

Bonar Plastics er með starfsemi í 8 löndum og starfrækir 12 hverfisteypuverksmiðjur auk þess sem það selur vörur sínar til annarra landa. Verksmiðjur félagsins eru Hockenheim í Þýskalandi, Deventer í Hollandi, Sörum í Danmörku, Miedzyrzecs í Póllandi,Montoir de Bretagne, Huningue og Bethune í Frakklandi, Barcelona á Spáni, Lindsay skammt frá Toronto í Kanada, Littleton skammt frá Denver í Colorado, Ridgefield Wasington skammt frá Portland Oregon og Chicago allar þrjár í Bandaríkjunum.

Promens

Promens hf. dótturfélag Atorka Group hf. var stofnað nú í vor í þeim tilgangi að skerpa áherslur í rekstri Sæplast samstæðunnar og skapa grundvöll að frekari eflingu og stækkun hennar bæði með innri og ytri vexti og yfirtók félagið þau dótturfélög Sæplast hf. sem ekki voru í umbreytingarferli. Eftir í systurfélaginu Sæplasti hf. eru þau dótturfélög sem eru í umbreytingarferli og er í starfsemi félagsins lögð áhersla á að ljúka því ferli. Promens og Sæplast er með starfsemi í 6 löndum auk söluskrifstofa í Hong Kong, Kína og Víetnam, starfrækja 8 verksmiðju og hjá félögunum starfa um 250 manns.