Breska leiguflugfélagið Excel Airways, sem er í eigu íslensku flutningasamstæðunnar Avion Group, hefur ákveðið að fjárfesta 50 milljónir evra (4,43 milljarða króna) í írsku einingu Excel, segir í frétt írska dagblaðsins Irish Independent.

Í samtali við dagblaðið sagðist Bill Smith, framkvæmdastjóri írsku einingarinnar, vera öruggur um að starfsemi Excel á Írlandi verði mjög arðbær og að reksturinn verði ekki neikvæður á fyrsta rekstrarárinu.

Fjármagnið verður að mestu nýtt til þess að kaupa nýja Boeing 737-800 flugvél, sem verður aðeins notuð í verkefni á Írlandi, en Excel áætlar að flytja um 65 þúsund farþega til og frá Írlandi næsta sumar.

Smith sagði að ef reksturinn verði yfir væntingum, þá sé mögulegt að nýta flugvélar breska móðurfélagsins, sem er með 17 flugvélar á sínum snærum.