XL Leisure Group, dótturfélag Avion Group, hefur náð samkomulagi um kaup á 100% hlutafjár í frönsku ferðaskrifstofunni Vacances Heliades, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Kaupverðið er 7,7 milljónir evra (tæplega 700 milljónir króna) en kaupin eru fjármögnuð með eigin fé og lánsfé. Heliades kemur inn í samstæðu Avion Group 1. janúar 2007, segir í tilkynningunni.

Heliades sérhæfir sig í ferðum til Grikklands og Kýpur. Með kaupunum verður XL Leisure Group fimmti stærsti ferðaþjónustuaðili Frakklands. Flugrekstraraðili XL Leisure Group í Frakklandi er Star Airlines sem er einnig annað stærsta leiguflugfélag Frakklands, segir í tilkynningunni.

Velta Heliades á síðasta ári var 80 milljónir evra (um 7.200 milljónir króna) og hagnaður félagsins fyrir skatta var 3,3 milljónir evra (um 300 milljónir króna).

Mikil samlegðaráhrif felast í kaupunum fyrir XL Leisure Group, þar sem breska ferðaskrifstofan Kosmar sem er í eigu samstæðunnar er að flytja farþega inn á sömu áfangastaði að hluta til. Þessi staðreynd býður upp á verulega hagræðingu í rekstri, segir í tilkynningunni.

Heliades, sem var stofnað í janúar 1980, mun styðja við núverandi starfsemi Star Airlines í Frakklandi. Star Airlines var keypt af Avion Group í febrúar á þessu ári til að byggja upp starfsemi Charter & Leisure sviðs Avion Group utan Bretlands.

Eftir kaupin á Heliades flytur Avion Group um sjö milljónir farþega á ári þegar tekið hefur verið tillit til farþega Star Airlines, ferðaheildsalans Crystal To, sem Star Airlines festi kaup á í júní og Heliades.

?Í Bretlandi höfum við rekið ferðaheildsölu innan XL Leisure Group og hefur það reynst vel. Við ætlum að byggja upp svipað viðskiptamódel hér í Frakklandi og kaupin eru liður í þeirri uppbyggingu," segir Magnús Stephensen, aðstoðarforstjóri XL Leisure Group.

"Kaupin á Heliades auka enn frekar vaxtatækifæri í Frakklandi og eru góð viðbót við Star Airlines, annað stærsta leiguflugfélag Frakklands, sem Avion Group keypti fyrr á árinu og ferðaheildsalan Crystal To. Fyrirtækið veitir okkur aðgang að stórum markaði en íbúar Frakklands eru um 60 milljónir. XL Leisure Group er nú orðinn fimmti stærsti ferðaþjónustuaðili í Frakklandi eins og í Bretlandi," sagði Magnús.