Excel Airways, dótturfyrirtæki Avion Group, hefur stofnað flugfélag á Írlandi, segir í fréttatilkynningu. Flugfélagið verður alþjóðlegt leiguflugfélag með höfuðstöðvar í Dublin á Írlandi og kemur til með að fljúga undir merki Excel Airways.

Bill Smith er forstjóri nýs félags og Carol Anne O'Neill framkvæmdastjóri en bæði hafa þau mikla reynslu af ferðaiðnaði á Írlandi. Bill Smith er einn af stofnendum Falcon/JWT á Írlandi og var framkvæmdastjóri og forstjóri félagsins þar í landi. Carol Anne O'Neill hefur einnig mikla reynslu af ferðaiðnaði á Írlandi og var áður rekstrarstjóri Falcon/JWT þar í landi.

?Ferðaskrifstofur og ferðaheildsalar taka örugglega fréttum um stofnun flugfélags á vegum Excel Airways fagnandi. Írar hafa aldrei ferðast í jafn miklu mæli og nú. Ryanair og Aer Lingus bjóða ekki lengur upp á leiguflug og því trúum við því að Excel Airways fylli upp í mikilvægt pláss á markaðinum. Við ætlum að bjóða upp á raunhæfan kost fyrir ferðaskrifstofur og gefa enn frekari möguleika á auknum tekjum fyrir ferðaheildsala," segir Bill Smith.

Félagið kemur til með að bjóða upp á styttri og lengri flug fyrir írskar ferðaskrifstofur og ferðaheildsala. Fyrstu flugin verða í maí til október 2007. Flogið verður frá Írlandi til áætlunarstaða á Flórída, Spáni, Kanaríeyjum, Portúgal, Grikklandi, Búlgaríu, Tyrklandi, Kýpur og Egyptalandi. Einnig er gert ráð fyrir að a.m.k. tveimur áætlunarstöðum til fjarlægari áfangastaða. Á fyrsta ári starfseminnar er gert ráð fyrir að farþegar félagsins verði a.m.k. 65 þúsund.

?Ég er ánægður að tilkynna um nýstofnaða starfsemi Excel Airways á áhugaverðum og góðum markaði.Írland er eitt af árangursríkustu hagkerfum Evrópu. Stjórnendur flugfélagsins eru vel þekktir í ferðaiðnaði þar. Með svo traustan bakgrunn á Írlandi verður þeim vel tekið af ferðaskrifstofum og ferðaheildsölum. Auk þess erum við að bjóða upp á raunverulega valkosti og aukna möguleika fyrir almenning."

Excel Airways hefur vaxið mikið frá stofnun fyrir um sex árum og eru 17 vélar grunnflota félagsins. Yfir sumartímann bætast ávallt við fleiri vélar og í sumar verða 27 vélar í rekstri Excel Airways.

Flugfélagið flýgur til yfir 50 áfangastaða í Evrópu, Mið Austurlöndum, Asíu og Norður Ameríku frá 12 flugvöllum í Bretlandi. Excel Airways Group var skráð í Kauphöllina í London áður en Avion Group yfirtók félagið árið 2004.

Umsvif leiguflugs og ferðaþjónustu (Charter & Leisure) hluta Avion Group hafa aukist mikið að undanförnu. Fyrst með kaupum á Star Airlines, öðru stærsta leiguflugfélagi Frakklands, svo stofnun Star Europe í Þýskalandi og nú síðast stofnun Excel Airways á Írlandi. Sumarið 2007 verða því flugfélög á vegum leiguflugs og ferðaþjónustu (Charter & Leisure) hluta Avion Group starfandi á ferðamannamarkaði sem telur 205 milljónir íbúa.