Hjálmur ehf. hefur keypt 28% hlut Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns í útgáfufélaginu Birtingi. Um leið hefur Hreinn Loftsson, stjórnarformaður Hjálms, tekið við stjórnarformennsku Birtings og er afskiptum Sigurðar af félaginu lokið.

Hjálmur ehf. er að öllu leyti í eigu Baugs Group hf. og átti 60% fyrir í Birtingi en er nú með um 90%, Elín Guðrún Ragnarsdóttir framkvæmdastjóri félagsins á 10% og þeir Reynir Traustason, Mikael Torfason og Jón Trausti Reynisson það sem eftir stendur.

Að sögn Elínar eru engar breytingar áformaðar á rekstri félagsins á næstunni en það gefur út átta tímarit, en þau eru Nýtt Líf, Mannlíf, Vikan, Séð og Heyrt, Gestgjafinn, Hús og híbýli, Ísafold og Sagan öll.

Að sögn Elínar hefur útgáfa Sögunnar allrar fengið mjög góðar viðtökur en skammt er síðan útgáfa þess hófst en Illugi Jökulsson er ritstjóri. Þá er áformað að hefja útgáfu á golftímariti í sumar. Sömuleiðis hefur útgáfutíðni Mannlífs verið aukin og kemur blaðið nú á þriggja vikna fresti og eru áform uppi um að auka útgáfutíðni enn frekar með haustinu og að blaðið komi þá á tveggja vikna fresti.

Hjálmur á einnig hlut í útgáfufélagi DV en Elín sagði engin áform um samþættingu rekstrarins.