Írska félagið Magnet Networks, sem er dótturfélag CVC á Íslandi, keypti fyrir skömmu írska fjarskiptafélagið Netsource fyrir um þrjár milljónir Bandaríkjadala.

Að sögn Bjarna Þorvarðarsonar, framkvæmdastjóra CVC á Íslandi ehf. (hjáheiti CVC Iceland Holding ehf.), tengjast kaupin uppbyggingu félagsins á Írlandi en segja má að hún sé tvíþætt. Annars vegar er um að ræða sæstreng sem nær milli Bandaríkjanna og Evrópu og er fyrirtækið utan um hann, Hibernia Atlantic, með höfuðstöðvar í Dublin og starfsstöðvar í fjórum löndum. Sæstrengurinn var keyptur fyrir þremur árum síðan og hefur verið unnið við að byggja upp tekjur í kringum hann síðan.

Hins vegar er um að ræða starfsemi í Dublin á Írlandi þar sem unnið er að því að byggja upp alhliða fjarskiptastarfsemi. Þar vinnur félagið við að selja síma, netþjónustu og dreifingu sjónvarpsefnis í gegnum hefðbundna símalínur eða ljósleiðara. Sú starfsemi fer fram í gegnum Magnet Networks sem er vinna við að auka sína markaðshlutdeild í gegnum uppkaup á félögum og innri uppbyggingu. Auk Netsource hefur félagið keypt fyrirtækið Leap sem veitir þráðlausa þjónustu.

Bjarni sagði að of snemmt væri að segja til um veltutölur þar sem Magnet Networks var stofnað í fyrra og því vöxtur félagsins hraður. Þess má geta að dótturfélagið Magnet Entertainment hrinti af stað einnar milljónar evra auglýsingaherferð í janúar síðastliðnum og stóð hún til loka mars. Þjónusta Magnet Entertainment nær nú til um 700.000 heimila í Dublin, Cork, Limerick, Galway og Waterford en nýlega gekk félagið frá samningi við ESB Telecoms sem gerir því kleift að nota ljósleiðaranet þeirra.