Iceland America Energy (IAE), dótturfélag Enex hf., og orkufyrirtækið Pacific Gas & Electric (PG&E) í Kaliforníu hafa undirritað samning um framleiðslu og sölu á 50 megawöttum (MW) af raforku. Um er að ræða fyrri áfanga af tveimur en alls er áætlað að virkjunarsvæðið geti gefið um 150 MW segir í tilkynningu félagsins.

Þar kemur fram að raforkan verður framleidd í orkuveri IAE í Truckhaven, rétt vestan við Salton Sea í Suður-Kaliforníu. Orkusölusamningur fyrri áfanga verkefnisins er metinn á um 45 milljarða króna ($600 milljónir dollara). IAE áætlar að hefja boranir snemma á árinu 2007 og afhenda orku úr fyrri áfanga um mitt ár 2010.

IAE hefur umsjón með útrás Enex í Bandaríkjunum og Kanada en hlutverk Enex er að markaðssetja tækniþekkingu og reynslu íslenskra fyrirtækja og stofnana á sviði orkumála með aðaláherslu á nýtingu orku úr jarðvarma og vatnsafli.

?Þetta er mikilvægt skref í útrás félagsins og sýnir að sókn okkar undanfarin ár er að skila árangri í formi virkjunarverkefna,? segir Lárus Elíasson, framkvæmdastjóri Enex. Félagið er um þessar mundir með verkefni á ýmsum stigum í El Salvador, Kína, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Ungverjalandi.

?Þessi samningur þýðir að IAE getur hafist handa við að fjármagna og hefja framkvæmdir við fyrri hluta þessa verkefnis en áætlaður kostnaður er í kringum 150 milljónir dollara. Þegar fyrri hlutanum er lokið, um 2010, verður farið í framkvæmdir við seinni hluta virkjunarinnar sem gefa mun 100 MW. PG&E á forkaupsrétt á viðbótarorkunni en gert er ráð fyrir að orkuverð hækki eitthvað á næstu árum þannig að seinni hluti verkefnisins skili enn meiri arði en sá fyrri,? segir Magnús Jóhannesson, framkvæmdastjóri IAE.

PG&E er stærsta orkuveitan í Kaliforníu en 30% viðskiptavina hennar fá raforku frá endurnýtanlegum orkugjöfum, þ.m.t. vatnsafli og jarðvarma. ?Þetta verkefni eykur á fjölbreytni í framboði PG&E á endurnýtanlegri orku og tryggir að um þriðjungur viðskiptavina okkar í Norður- og Mið-Kaliforníu fær sína orku frá vatnsaflsvirkjunum og öðrum endurnýtanlegum orkugjöfum,? segir Fong Wan, aðstoðarforstjóri orkuöflunar PG&E í tilkynningunni ?Hinir nýju orkugjafar munu bætast í safn orkugjafa félagsins sem þegar eru með þeim minnst mengandi í Bandaríkjunum.?