Félagið FL Bayrock Holdco ehf var tekið til gjaldþrotaskipta í héraðsdómi Reykjavíkur 15. janúar síðastliðinn. Skiptastjóri lýsir eftir kröfum lánardrottna í þrotabúið. FL Bayrock Holdco var dótturfélag FL Group og vann að nokkrum verkefnum í Bandaríkjunum. Eitt undirfélaga þess keypti m.a. 15 hektara byggingasvæði við East River í Queens-hverfinu í New York og hafði áform um byggingu íbúðahverfis þar árið 2007.

Byggingaplön FL Group í Bandaríkjunum fóru ekki á sama veg og lagt var upp með.

Árið 2008 nam tap félagsins 17,6 milljörðum króna. Þar af skrifuðust 4,5 milljarða á gengismun. Bókfært virði þriggja fasteignafélaga FL Bayrock Holdco í Bandaríkjunum voru afskrifuð. Nafnvirði þeirra var hins vegar sagt um 4 milljarðar króna. Skuldir félagsins, sem voru gagnvart FL Group, námu 13 milljörðum króna. Eigið fé FL Bayrock Holdco var neikvætt sem nam skuldunum gagnvart FL Group.

Lítil breyting hefur orðið á félaginu síðan þetta var. FL Bayrock Holdo tapaði þrjú þúsund krónum árið 2012. Eigið fé félagsins var enn neikvætt um 13 milljarða. Eignir félagsins námu rétt tæpri milljón króna sem að mestu samanstóð af handbæru fé upp á rúmar 900 þúsund krónur. Fasteignafélögin þrjú voru færð til eignar í bókum félagsins. Virði þeirra var enn ekkert árið 2012.