Búið er að segja upp um helmingi starfsfólks IGS Ground Services (IGS) sem vinnur við veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða sem nemur 20 stöðugildum. Fyrir liggur að segja þeim upp sem eftir eru um þarnæstu mánaðamót. IGS, sem er dótturfélag Icelandair Group, hefur verið með veitingareksturinn á sinni könnu í flugstöðinni í nokkur ár. Gunnar S. Olsen, framkvæmdastjóri IGS, segir ástæðu uppsagnanna þá að nú liggi fyrir að IGS lúta lægra haldi fyrir öðrum sem buðu í veitinga- og verslanarekstur í flugstöðinni.

Ekki liggur enn fyrir hver fær reksturinn í stað IGS. Samningaviðræður við þá sem báru af í mati umsókna í forvalinu eru framundan. Samningstími núverandi rekstraraðila rennur út í árslok og gert er ráð fyrir að endurnýjað verslunarsvæði verði tekið í notkun í vor á næsta ári.

Gunnar segist hafa bundið vonir við að geta dregið uppsagnirnar til baka. Nú þegar ljóst sé að IGS sé ekki á meðal þeirra sem rætt verði við sé ljóst hvert stefni.