Rúmenska prentsmiðjan Infopress, dótturfélag Kvosar hf., tók um helgina í notkun nýjan prentbúnað sem eykur afkastagetu prentsmiðjunnar til muna. Þessi fjárfesting félagsins í nýjum búnaði mun færa Infopress aukið samkeppnisforskot heima fyrir og í nágrannalöndunum. Alls nemur kostnaður við tækjakaupin um 15 milljónum evra, jafngildi um 1,3 milljörðum króna, að því er fram kemur í tilkynningu.


"Þetta eru stærstu einstöku tækjakaupin hjá Kvos og dótturfélögum hingað til", segir Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri erlendrar starfsemi Kvosar. Um er að ræða tvær nýjar hágæðaprentvélar: Lithoman III, Komori S 38, fullkomna stafræna prentvél: SCREEN Plate Rite ULTIMA 24000 auk annars búnaðar af ýmsu tagi. "Þetta er hins vegar bara byrjunin, því við þurfum að bæta við öðru eins mjög fljótlega miðað við eftirspurnina. Það er greinilegt að Mið- og Austur-Evrópa er mest spennandi svæðið í prentiðnaði heimsins núna og ef allt gengur eftir verður Infopress stærsta prentsmiðjan á þessu svæði innan fárra ára, jafnvel ein sú stærsta í Evrópu," segir Birgir.


Velta Infopress nam um 50 milljónum evra í fyrra og gert er ráð fyrir að hún aukist um 10 milljónir evra á þessu ári, en starfsmenn eru um 380 talsins. Fyrirtækið var stofnað árið 1990 af Andras Albert og hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár. Í fyrra var gengið frá kaupum Kvosar á fyrirtækinu með það að markmiði styrkja stöðu Kvosar sem eignarhalds- og fjárfestingafélags í alþjóðlegum prentiðnaði og skyldum rekstri. Kvos á nú 11 dótturfélög í þremur heimsálfum þar sem starfa um 1.300 starfsmenn.