Reginn ehf., dótturfélag Landsbankans, hefur eignast allt hlutafé í Laugahúsum ehf. Félagið Laugahús rekur fasteignir líkamsræktarstöðvar World Class í Laugardal. Á heimasíðu Regins kemur fram að húsið, sem er rúmlega 7.000 fermetrar að stærð, er allt leigt út til Lauga ehf. sem rekur heilsuræktina World Class. Laugar ehf. er í eigu Björns Leifssonar. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að að eftirlitinu var tilkynnt um yfirtöku Regins á Laugahúsi þann 14. desember 2010.

Að mati Samkeppniseftirlitsins raskar yfirtakan samkeppni og taldi því nauðsynlegt að setja samrunanum skilyrði, samkvæmt niðurstöðu eftirlitsins sem greint er frá á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins. Segir að um sé að ræða ítarleg skilyrði, sem miða að því að draga úr samkeppnisröskun sem stafað getur af eignarhaldi bankans á fyrirtækinu. Reginn hefur fallist á að hlíta þeim skilyrðum.

Laugahús ehf. var í eigu Nýsis, samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2009. Nýsir hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta en  áður átti Björn Leifsson helmingshlut Í Laugahúsi á móti Nýsi. Í tilkynningu frá World Class frá árinu 2004, að tilefni af því að Ístak afhenti Laugahúsi ehf. húsnæði Lauga, segir að Laugahús muni sjá um rekstur fasteignanna, framkvæmdastjórn, kynningar– og markaðsstarf, útleigu á rými og annast ýmsa sameiginlega þjónustu. World Class muni annast rekstur heilsuræktarinnar og baðstofunnar.

Greiddi 25 milljónir fyrir rekstur

Laugar ehf., sem leigir fasteignina í Laugardal af Reginn, greiddi 25 milljónir fyrir rekstur World Class af félaginu ÞS69 ehf. ÞS69 hélt áður Þrek ehf. og var í eigu Björns og Hafdísar Jónsdóttur. Í frétt Viðskiptablaðsins frá því í nóvember sl. kom fram að Laugar greiddu 5 milljónir í reiðufé auk þess að taka yfir skuldbindingar vegna starfsmanna félagsins að andvirði 20 milljónir. Félagið tók einnig yfir skuldbindingar gagnvart korthöfum World Class upp á 241 milljón króna.

Þrek ehf. fór í þrot árið 2009 og nema kröfur í þrotabúið um 2,2 milljörðum króna. Skiptastjóri þrotabúsins telur að um gjafagerning hafi verið um að ræða og vill að dómstólar rifti kaupunum á rekstarfélagi World Class. DV greindi frá fyrirtöku málsins fyrr í þessum mánuði. Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson, skiptastjóri búsins, telur að virði World Class sé að minnsta kosti 500-700 milljóna króna virði.

Uppfært kl 16:20 þann 13. Maí 2011. Þar kemur fram að Laugar ehf. greiddu 25 milljónir króna fyrir rekstur World Class auk þess sem teknar voru yfir skuldbindingar að fjárhæð 241 milljón króna gagnvart korthöfum World Class.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að tilkynnt var um yfirtöku Regins á Laugahúsum þann 14. desember 2010. Eftirlitið ákvarðaði í málinu þann 11. maí sl., líkt og kemur fram í fréttinni.