Eignarhaldsfélagið Vestia ehf., dótturfyrirtæki Landsbankans, fer nú með allt hlutafé í Icelandic Group  hf. í kjölfar þess að bankinn hefur tekið yfir eignarhald á móðurfélagi þess, Eignarhaldsfélaginu IG ehf.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vestia en þar segir að tilfærsla eignarhaldsins sé unnin í góðu samráði og samstarfi við fyrri eigendur félagsins. Þá segir að þessi breyting muni ekki hafa nein áhrif á stefnu eða daglegan rekstur Icelandic Group, heldur muni hún verða til að „styðja yfirstjórn félagsins og renna frekari stoðum undir þau verðmæti sem í rekstri félagsins felast,“ eins og það er orðað á vef Vestia.

„Icelandic Group stendur nú fjárhagslega styrkum fótum, en verulegur viðsnúningur hefur orðið í rekstri þess á undanförnum 18 mánuðum, eða frá því að fjárhagsleg endurskipulagning félagsins hófst í október 2008,“ segir á vef Vestia.

„Á þessum tíma hefur verið unnið ötullega að því að lækka skuldir og veltufjárbindingu félagsins og hefur framlegð þess aukist í  kjölfarið. Reksturinn skilar nú hagnaði.“

Þá segir að með aðkomu Vestia að Icelandic Group sé stigið lokaskref fjárhagslegrar endurskipulagningar félagsins. Gert er ráð fyrir að samsetning stjórnar verði óbreytt að öðru leyti en því að fulltrúi Vestia mun taka sæti í stjórn félagsins.

Einnig kemur fram að ákvörðun um tímasetningu sölu Icelandic Group og fyrirkomulag slíkrar sölu verður ekki tekin fyrr en við lok þriðja ársfjórðungs 2010. Næstu mánuði muni Vestia styðja við stjórnendur þess svo hægt sé að fullnýta tækifæri í rekstrinum og hámarka verðmæti hlutafjár þess.

Loks kemur fram að Vestia mun, þegar aðstæður skapast, bjóða Icelandic Group til sölu í opnu ferli ellegar skrá hlutabréf félagsins á skipulegan verðbréfamarkað í því skyni að tryggja jafnræði fjárfesta.