Dótturfélag Marel hf. hefur keypt dreifingar-og þjónustuhluta Maritech í Noregi af AKVA Group ASA. Framvegis mun Marel Food Systems sjálft dreifa vörum samstæðunnar í Noregi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í apríl gekk íslenskafyrirtækið TM Software frá samningi um sölu á öllum hlutabréfum í Maritech International til AKVA Group ASA í Noregi.

Maritech hefur verið umboðsaðili Marel Food Systems í Noregi í 20 ár og hefur átt mikinn þátt í því að skapa vörum Marel Food Systems sterka markaðsstöðu þar í landi. Með kaupum Marel Food Systems á dreifingarhluta Maritech koma til starfa hjá samstæðunni þeir 19 starfsmenn sem hafa starfað við sölu og þjónustu á vörum Marel Food Systems hjá Maritech og svo lausafé sem notað hefur verið við reksturinn.

Marel Food Systems mun taka yfir reksturinn þann 1. september 2007.

Kaupin eru hluti af áherslubreytingum Marel Food Systems að eiga sjálft öll dreifingar- og sölufyrirtæki, en félagið rekur nú 24 sölu- og dreifingarfyrirtæki um allan heim.

Kaupin munu hafa óveruleg áhrif á veltu Marel Food Systems.