Applicon A/S, dótturfélag Nýherja hf. í Danmörku, hefur sem undirverktaki þýska fyrirtækisins Siemens IT Solutions undirritað samning um að annast innleiðingu á SAP viðskiptakerfum fyrir sjúkrahús og aðrar heilbrigðisstofnanir Region Hovedstaden stjórnsýsluumdæmisins í Kaupmannahöfn og á Norður Sjálandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja en heildarsamningurinn er að fjárhæð um 4 milljarðar króna, þar af er hlutur Applicon A/S um 1,8 milljarðar króna.

Fram kemur að vinnan við uppsetningu kerfisins tekur um þrjú ár og er gert ráð fyrir að henni ljúki 2012. Um er að ræða stærsta samning sem Nýherji og dótturfélög hafa gert fram til þessa.

Region Hovedstaden annast meðal annars rekstur heilbrigðisþjónustu og eru starfsmenn þar um 36 þúsund. Samningur Siemens IT Solutions og Applicon nær til 15 sjúkrahúsa og annarra stofnana heilbrigðisstarfseminnar. Þjónusta Region Hovedstaden nær til 1,6 milljóna Dana.

Verkefnið felst í uppsetningu á sameiginlegu upplýsingakerfi þessara aðila, sem tekur m.a. til fjárhags, innkaupa, vörustjórnunar, þjónustu og flutninga. Innleitt verður eitt kerfi byggt á SAP hugbúnaði og kemur það í stað fimm upplýsingakerfa, sem Region Hovedstaden hefur notað um árabil.

Í tilkynningunni segir að markmiðið með uppsetningu á nýju kerfi sé m.a. að stuðla að öflugri rekstrarstýringu og samhæfingu á starfsemi og innkaupum þessara sjúkrastofnana og tryggja góða yfirsýn yfir rekstur þeirra. Um 10 þúsund heilbrigðisstarfsmenn munu nota kerfið, þegar það verður að fullu uppsett og er gert ráð fyrir að það muni skila verulegum sparnaði í starfsemi heilbrigðisstofnana.

Verkefni þetta var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og var tilboð Siemens IT Solutions og Applicon valið úr hópi ellefu bjóðenda eftir vandað útboðsferli.