Sænska fjármálafyrirtækið Landshypotek hefur valið SAP bankalausnir frá Applicon, dótturfélagi Nýherja. Áætlað verðmæti samningsins nemur nærri hálfum milljarði króna.

Þetta er annar stóri samningurinn sem íslenskt fyrirtæki gerir í Svíþjóð en Advania, áður Skýrr, hefur samið við sænsku tryggingastofnunina um uppsetningu á upplýsingakerfi.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að fyrsta áfanga verkefnisins sé lokið, þar sem dótturfélag Landshypoteks, Jordbrukskredit, hefur tekið upp bankakerfi frá SAP. Samhliða þessu er Landshypotek orðinn aðili að sænska greiðslumiðlunarkerfinu og hefur sótt um leyfi til að starfa sem hefðbundinn banki.

SAP lausnir Applicon munu ná til til allrar starfsemi Landshypotek við afgreiðslu viðskiptavina, lánaumsókna, innlána, markaðssetningu, eftirfylgni og þróun. Þá verða samskipti viðskiptavina við Landshypotek einfölduð, m.a. með aðgengi að reikningum gegnum netið, sem byggir á netbankalausn Applicon. Að verkefninu koma sérfræðingar frá Applicon í Svíþjóð, Íslandi og Danmörku. Auk SAP bankalausnar voru innleiddar lausnir sem þróaðar hafa verið í yfir tíu ár af starfsmönnum Applicon á Íslandi. Lausnir sem nauðsynlegar eru til að geta notað staðlaða bankalausn SAP á Norðurlöndunum.

Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Hjá Applicon starfa um 170 manns á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð og er fyrirtækið í eigu Nýherja.