Applicon A/S í Danmörku, sem er dótturfélag Nýherja, hefur gert samning við ríkisjárnbrautirnar þar í landi (DSB) um umfangsmikla SAP ráðgjafarþjónustu er tengist áformum fyrirtækisins um samræmingu og hagræðingu í rekstri.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja en samningurinn tekur til uppsetningar á einstökum einingum SAP fjárhagskerfisins fyrir lagerhald, innkaup, viðhaldsþjónustu, framleiðslu, sölu og reikningagerð.

Fram kemur að DSB flytur um 168 milljónir farþega á ári og er með 80% af lestarsamgöngumarkaðinum í Danmörku. Um 9.200 manns starfa hjá félaginu.

„DSB hyggst breyta skipulagi þjónustueininga fyrirtækisins og aðlaga að framtíðarmarkmiðum félagsins og er Applicon A/S ætlað að taka þátt í þeirri vinnu. Byggt verður á þeim SAP grunnkerfum, sem þegar eru uppsett í fyrirtækinu,“ segir í tilkynningunni.

Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Applicon félög Nýherja eru starfrækt í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi og hjá þeim starfa um 170 manns.