*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 16. apríl 2019 11:19

Dótturfélag PwC sameinist Eignaumsjón

Eignaumsjón tekur við allri starfsemi Húsastoðar, dótturfélags PricewaterhouseCoopers og stefnt er að sameingu félaganna.

Ritstjórn
Friðgeir Sigurðsson, forstjóri PwC á Íslandi, Sigurveig Friðgeirsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Húsastoðar og Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.

Samkomulag hefur náðst milli PricewaterhouseCoopers ehf. og Eignaumsjónar hf. um að Eignaumsjón taki við allri starfsemi Húsastoðar ehf., dótturfélags PwC og annist alla þjónustu við viðskiptavini Húsastoðar, í samræmi við gildandi þjónustusamninga. Til lengri tíma litið er stefnt að sameiningu félaganna.

Engar efnislegar breytingar verða á samningum þeirra hús- og rekstrarfélaga sem eru í þjónustu hjá Húsastoð þegar Eignaumsjón tekur formlega við rekstri félagsins frá deginum í dag að telja. Sömu samningar eru áfram í gildi segir í fréttatilkynningu.

Jafnframt verður starfsfólk Húsastoðar, sem starfar áfram hjá PwC, bæði viðskiptavinum Húsastoðar og starfsfólki Eignaumsjónar innan handar næstu vikurnar á meðan gengið er frá formsatriðum.

„Við hlökkum til að takast á við þá áskorun að taka við rekstri Húsastoðar og erum þess fullviss að vel muni takast til, enda hefur Eignaumsjón verið leiðandi í þessari þjónustu allt frá því að félagið tók til starfa árið 2001,“ segir Daníel Árnason, framkvæmdastjóri Eignaumsjónar.

„Með tilkomu Húsastoðar sjáum við nú um hátt í 500 hús- og rekstrarfélög með nærri 12 þúsund íbúðum eða einingum. Áhersla okkar til framtíðar er að mæta vaxandi þörfum eigenda fasteigna með góðri þjónustu og skilvirkum lausnum sem byggja á gagnsæi upplýsinga og umhverfisvænum gildum.“

Sigurveig Friðgeirsdóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Húsastoðar segir það ekki falla að kjarnastarfsemi PwC að eiga og reka húsfélagaþjónustu.

„Mikil þróun hefur átt sér stað á þessum markaði og meiri þörf er orðin fyrir sérhæfðari þjónustu sem stærri þjónustuaðili á betra með að veita, enda rekstur hús- og rekstrarfélaga alltaf að verða flóknari og umfangsmeiri,“ segir Sigurveig.

„Við teljum það góða lausn að Eignaumsjón taki við keflinu, enda lögðum við upp með að öflugur aðili á þessum markaði taki við til að tryggja að vel verði hugsað um viðskiptavini Húsastoðar og hagsmuni.“