*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 30. maí 2013 17:39

Dótturfélag Regins sýknað af kröfu Norðurturnsins

Hæstiréttur sýknaði í dag dótturfélag Regins af 1,3 milljarða kröfu þrotabús Norðurturnsins ehf.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Eignarhaldsfélagið Smáralind ehf., dótturfélag Regins hf., hefur verið sýknað af kröfum þrotabús Norðurturnsins ehf. með dómi Hæstaréttar frá því í dag 30.5.2013. Eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur síðla árs 2012 var niðurstöðunni áfrýjað af þrotabúi Norðurturnsins.

Í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar segir að skiptastjóri þrotabús Norðurturnsins, sem er fyrrum systurfélag Eignarhaldsfélagsins Smáralindar, hafi stefnt Eignarhaldsfélaginu Smáralind ehf. til greiðslu kröfu að fjárhæð 1,3 milljarði króna byggt á því að Eignarhaldsfélagið Smáralind hafi undirgengist skuldbindingu um að leggja til þá fjármuni til byggingar fasteignar við Smáralind, svokallaðs Norðurturns.

Eignarhaldsfélagið Smáralind hafnaði þeirri kröfu um að félaginu bæri að greiða hluta byggingakostnaðar á þeirri forsendu að engar samþykktir finnist í gögnum félagsins fyrir þáttöku í byggingakostnaðinum, með dómnum er það viðhorf staðfest.

Tekið er fram í tilkynningunni að í tengslum við skráningu Regins hf. á markað sl. vor hafi Landsbankinn gefið út skaðleysisyfirlýsingu til handa Eignarhaldsfélagi Smáralindar vegna dómsmálsins, þannig að niðurstaða þess hefði engin áhrif á félagið, þar sem Landsbankinn myndi taka yfir greiðsluskyldu gagnvart stefnanda ef til hennar kæmi.