(SKIP.IS) Framherji, sem er dótturfélag Samherja hf. í Færeyjum, hefur keypt tog- og nótaskipið Krúnborgu af útgerðarfélaginu Eiler Jacobsen. Krúnborg er stærsta og burðarmesta uppsjávarveiðiskipið, sem gert er út við norðanvert Atlantshaf, og getur það borið 3200 tonn af fiski í tönkum.

Gengið var frá sölu skipsins í gær og hafði skipasalan Álasund ehf. milligöngu um kaupin. Krúnborg er til þess að gera nýtt skip, smíðað í Noregi árið 1999 en lengt um 7,80 metra í september árið 2004. Það er 82,05 metra langt og 14,00 metra breitt og mælist það 2832 brúttótonn samkvæmt upplýsingum hjá Skipalistin í Færeyjum.

Petur H. Jacobsen, útgerðarmaður Krúnborgar, segir í samtali við færeyska útvarpið að söluverð skipsins sé trúnaðarmál en svo gott tilboð hafi verið gert í skipið að ákveðið hafi verið að taka því.

Það eru töluverð tíðindi fyrir Íslendinga að dótturfélag Samherja hafi nú keypt þetta mikla og öfluga skip því svo sem kunnugt er þá hafa skip Framherja af og til fengist færð yfir á íslenskt flagg og fengið að veiða af kvóta Samherja í íslenskri lögsögu. Ekki þyrfti að koma á óvart þótt Krúnborg fengi slíkt leyfi í framtíðinni.

Þess má geta að þegar verið var að smíða nýju Krúnborgina lenti útgerðin í fjárhagserfiðleikum og varð að selja eldra skip með sama nafni. Það var selt til útgerðar Christian í Grótinum og heitir nú Norðborg. Nýsmíðin, sem samið hefur verið um í Chile fyrir það útgerðarfélag með milligöngu BP Skipa, á að koma í stað Norðborgarinnar eða gömlu Krúnborgarinnar.