Icelandic Iberica, dótturfélag SH á Spáni, hefur undirritað samning um kaup á fyrirtækinu Ecomsa S.A. í Malaga. Ecomsa var stofnað árið 1981 og var við kaupin að 80% hluta í eigu stofnanda fyrirtækisins, Luis García Parra, en auk þess áttu stjórnendur fyrirtækisins 20% hlutafjár. Helstu stjórnendur fyrirtækisins munu starfa áfram hjá sameinuðu félagi. Fyrir hlutafé Ecomsa, að teknu tilliti til handbærs fjár, greiðir Icelandic Iberica 4,1 milljón evra sem svarar til bókfærðs verðs eigin fjár.

Ecomsa er framleiðslu- og sölufyrirtæki sem veltir rúmum 21 milljón evra. Hjá fyrirtækinu starfa um sextíu manns. Helsti styrkur fyrirtækisins liggur í vinnslu og dreifingu á ýmsum skelfisktegundum, smokkfiski, auk hvítfisks.

Fyrirtækið er staðsett í borginni Málaga á suður Spáni og er þar með vinnslu og dreifingu inn á veitingahús og verslanir. Auk þess á það dreifistöðvar við Costa del Sol og í Sevilla. Fyrirtækið hefur verið rekið með hagnaði mörg undanfarin ár.

Hjörleifur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Icelandic Iberica, segir að ?með kaupunum á Ecomsa styrki Icelandic Iberica stöðu sína á spænska markaðnum, en velta sameinaðs fyrirtækis mun nema um 90 milljónum evra á þessu ári. Með kaupunum tryggir Icelandic Iberica annars vegar aðgengi að mörkuðum og hins vegar aðgang að mjög mikilvægum afurðaflokkum fyrir markaðina í Suður - Evrópu. Icelandic Iberica er sérhæft í hvítfiski en með kaupunum á Ecomsa breikkum við og styrkjum verulega vöruframboðið sem við getum boðið viðskiptavinum okkar".