Sensa, dótturfélag Símans, hefur keypt þjónustu- og ráðgjafarfyrirtækið Basis ehf. sem starfar á sviði rekstrar og hýsingar tölvukerfa. Í tilkynningu kemur fram að fyrirtækin verða sameinuð undir nafni Sensa og að starfsfólk Basis færist til Sensa. Basis var stofnað árið 2004 og eru starfsmenn um 25 talsins. Eftir sameiningu hefur Sensa á að skipa tæplega 150 sérfræðingum á Íslandi í rekstri, hýsingu og samskiptalausnum auk þess sem 15 starfsmenn starfa hjá dótturfélagi Sensa í Danmörku.

Valgerður H. Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, leiðir sameinað félag, en framkvæmdastjóri Basis er Alexander Picchietti. Sensa var stofnað í ársbyrjun 2002 og keypti Síminn fyrirtækið árið 2007. Í tilkynningu segir að fyrirtækið hafi verið rekið með hagnaði öll árin frá stofnun. Um áramótin tók Sensa við upplýsingatæknirekstri Símans.