On Waves sem er fyrirtæki á markaði í þráðlausum fjarskiptum á sjó, hefur gert samning um að fjarskiptavæða allan flota franska farþegaskipafélagsins Brittany Ferries.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum en On Waves er dótturfyrirtæki Símans.

Um er að ræða 8 farþegaskip og í samningnum er gert ráð fyrir að þeim fjölgi í framtíðinni.

Fram kemur í tilkynningunni að á síðasta ári hafi Brittany Ferries flutt vel á þriðju milljón farþega í Evrópu.

Þá kemur fram að tæknin sem On Waves byggir á gefur notendum kost á GSM símasambandi um borð í skemmtiferðaskipum og ferjum, flutningaskipum, einkaþotum og á afskekktum landsvæðum.

„Við erum afar stolt af því að Brittany Ferries hafi ákveðið að ganga til samninga við On-Waves um fjarskiptaþjónustu, segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans og stjórnarformaður On Waves.

„Þetta er mjög traust og vel þekkt skipafélag í Evrópu en það siglir að mestu milli Bretlands, Frakklands, Írlands og Spánar. On Waves lausnin hefur reynst afar vel og það er okkur mikil ánægja að taka þátt í því að gera ferðamönnum kleift að nota það besta sem býðst í þráðlausum fjarskiptum á hafi úti.“

Þá kemur fram að On Waves þjónar nú þegar yfir 50 skipum, bæði skemmtiferðaskipum og stórum farþegaferjum sem sigla um Evrópu, Karabíska hafið og víðar.