Norska Vinnumála- og tryggingastofnunin (NAV) hefur skrifað undir samning við Sirius IT, dótturfyrirtæki Skipta hf., um þróun og viðhald á upplýsingarkerfinu Arena, sem er kjarnakerfi stofnunarinnar.

Áætlað verðmæti samningsins er liðlega 200 milljónir norskra króna eða um þrír milljarðar íslenskra króna. Samningurinn nær til næstu fjögurra ára, með möguleika á eins árs framlengingu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sirius IT.

„Við erum mjög stolt af því að NAV skuli velja Sirius IT til að sjá um og þróa þetta mikilvæga upplýsingakefi,” segir Hreinn Jakobsson , stjórnarformaður Sirius IT í tilkynninguni.

„Arena er eitt af flóknustu verkefnisstjórnunarkerfum NAV og nauðsynlegt verkfæri til að norska ríkið geti sinnt lögbundnu eftirlitshlutverki sínu á áhrifaríkan máta. Þeir gera miklar kröfur til þess aðila sem heldur utan um kerfið, sem m.a. endurspegluðust í  útboðskröfum stofnunarinnar en Sirius IT var talið hæfast af þremur fyrirtækjum sem fengu endanlega að taka þátt í útboðinu. Í þessu felst mikil viðurkenning og traust á okkar fyrirtæki, ekki síst þekkingu og færni okkar starfsmanna,” segir Hreinn.

Arena er samkvæmt tilkynningunni mjög umfangsmikið viðskipta- og  verkefnastjórnunarkerfi með yfir 8000 skilgreinda notendur stofnunarinnar.

Kerfið heldur utan um og vinnur úr  miklum upplýsingum varðandi norska vinnumarkaðinn og ýmis réttindamál, m.a. styður kerfið við samskipti og ráðningu vinnuafls jafnt sem stjórnun á hreyfingum innan vinnumarkaðarins, auk þess að stýra atvinnuleysisbótum og langtíma veikindaleyfum.

Samningurinn nær yfir allt viðhald og þróun sem tengist Arenu en gert er ráð fyrir að á næstu árum eigi sér stað umtalsverð þróun og uppfærsla á kerfinu. Þróunin lýtur bæði að tæknilegum atriðum en einnig er gert ráð fyrir að þróa stuðningskerfi fyrir fleiri notendahópa og að auka þjónustuframboðið.

„Verkefnisstjórnunarkerfi sem styður við kjarnastarfsemi og flókið regluverk skiptir miklu máli í rekstri stórra opinberra stofnanna. Stöðugar breytingar, bæði af hálfu löggjafans og notenda kerfisins, auk þarfarinnar fyrir nýja þjónustu, krefjast þess að slík kerfi séu í sífelldri þróun. Þetta gerir miklar kröfur um hæfni, aðferðafræði og stöðugleika þess sem sinnir kerfinu og við lítum á það sem heiður og viðurkenningu að NAV hafi valið að vinna með okkur,“ segir Carsten Boje Möller, framkvæmdastjóri Sirius IT.