Sirius IT dótturfélag Skipta hefur gengið frá samning við stjórnvöld í Slóveníu að því er segir í fréttatilkynningu. Samningurinn felur í sér sölu og þjónustu á eftirlitskerfi með skipaumferð í slóvenskri lögsögu.

Ríkisstjórn Slóveníu bauð út á evrópska efnahagssvæðinu kaup á eftirlitskerfi með skipaflota sem siglir í slóvenskri lögsögu.  Á grundvelli tilboða sem bárust í útboðið var gengið til samninga við Sirius IT, dótturfélag Skipta í Danmörku.

Hreinn Jakobsson, stjórnarformaður Sirius IT, segir í tilkynningu að þetta sé afar ánægjulega niðurstaða fyrir félagið.

„ Eftirlitskerfið sem nefnist V-track er hannað til að fylgjast með allri skipaumferð á tilteknu svæði, ekki ósvipað því sem notað er við flugumferðastjórn. Kerfið uppfyllir alla staðla sem Evrópusambandið setur á slík eftirlitskerfi og nú þegar eru fleiri Evrópusambandslönd að skoða þetta kerfi til innleiðingar enda skýrar reglur um að öll Evrópusambandsríkin sem hafi lögsögu á sjó þurfi að hafa eftirlit með allri skipaumferð innan sinnar lögsögu,“ segir Hreinn í tilkynningu.

Í dag er V-track eftirlitskerfið í notkun hjá átta Evrópuþjóðum. Kerfið er einfalt í uppsetningu og afar notendavænt. Kerfið tengist gervihnöttum sem móttaka upplýsingar um staðsetningu skipanna sem senda svo  upplýsingarnar áfram inn í V-track kerfið en þaðan hafa allir sem skilgreindir eru sem notendur kerfisins beinan aðgang að upplýsingunum í gegnum vefviðmót.

Sirius IT er dótturfyrirtæki Skipta hf.  Þjónusta Sirius IT felst í ráðgjöf, kerfisþróun, innleiðingu kerfa og margþættri þjónustu. Fyrirtækið veitir fyrst og fremst ýmsa virðisaukandi upplýsingatækniþjónustu til opinberra fyrirtækja, bæði ríki og sveitarfélaga, auk ákveðinna fyrirtækja í einkageiranum. Sirius IT var stofnað árið 2006 og hjá fyrirtækinu starfa í dag ríflega 420 manns í Danmörku, Noregi og Svíþjóð Rekstur félagsins hefur gengið mjög vel frá upphafi og eru áætlaðar tekjur þessa árs um 10 milljarðar króna.