Stork Technical Services hefur keypt fyrirtækið RBG Ltd, sem er með höfuðstöðvar í Skotlandi.  Kaupin voru gerð í gegnum London Acquisition, móðurfélag Stork.    Eyrir Invest á 17% í London Acquisition, sem á og rekur Fokker flugiðnaðardeild og Stork Technical Services. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send hefur verið fjölmiðlum.

Í tilkynningunni segir að RBG starfar á ámóta sviði og Stork Technical Services í þjónustu við olíu og gasiðnað.   „Kaupin auka stærð og styrk Stork Technical Services sem veltir um 1.400 milljónum evra eftir kaupin og hefur samtals um 14.500 starfsmenn víða um heim.   Meginstarfsemi er í Norðursjó, Benelux löndum, við Kaspíahaf auk þess sem víðtæk starfsemi er í S-Ameríku."

Eyrir Invest í samstarfi við Candover yfirtók iðnaðarsamstæðuna Stork í ársbyrjun 2008. Samhliða því keypti Marel matvælavinnsluhlutann Stork Food Systems út úr samstæðunni.   Kaup Stork Technical Services nú er í tilkynningunni sögð í samræmi við „kaup og styðja til vaxtar" stefnu Eyris Invest.

Í tilkynningunni segir Davo Workman, forstjóri RBG, að kaupin feli í sér góðar fréttir fyrir fyrirtækið á alþjóðavettvangi. Ákvarðanir hafi miðað að því að byggja fyrirtækið upp og gera það leiðandi á sínu sviði. Þetta sé mikilvægt skref á þeirri vegferð. Viðskiptin fela í sér tækifæri fyrir starfsfólk og viðskiptavini til að veita og fá fyrsta flokks þjónustu. „Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta er jákvætt skref fyrir alla," er haft eftir Workman í tilkynningunni.