*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 22. mars 2011 08:53

Dótturfélag Sunds lýst gjaldþrota

Fékk 7,8 milljarða króna að láni árið 2008 til kaupa á bréfum Glitnis. Eigendur Sunds neita að lýsa félagið gjaldþrota.

Ritstjórn
Jón Kristjánsson er einn eigenda Sunds
vb.is

IceProperties, dótturfélag IceCapital sem áður hét Sund, hefur verið úrskurðað gjaldþrota af Hæstarétti. Frá þessu greinir Fréttablaðið í dag. Vitnað er í úrskurð Hæstaréttar þar sem fram kemur að IceProperties hafi fengið alls um 7,8 milljarða króna að láni hjá Glitni árið 2008 til kaupa á hlutabréfum bankans. Ekkert hafi verið greitt af þessum lánum í fyrra og á þessu ári.

Eins og fram kom í frétt Viðskiptablaðsins 3. mars sl. neita eigendur Sunds/IceCapital að lýsa félagið gjaldþrota þrátt fyrir að eigið fé þess sé neikvætt um tæpa 25 milljarða króna samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur hins vegar fram að skuldir félagsins séu um 64 milljarðar króna.

Stjórn Sunds/IceCapital segir ástæðu þess að félagið sé ekki lýst gjaldþrota vera að stjórnin hafi ekki gengið endanlega úr skugga um raunverulega eigna- og skuldastöðu félagsins.

Stikkorð: Sund IceCapital IceProperties