Bókun ehf, íslenskt dótturfélag TripAdvisor samstæðunnar, hagnaðist um tæpa 401 milljón króna á síðasta ári, samanborið við ríflega 173 milljóna tap árið áður. Velta félagsins nam um 1,9 milljörðum króna, samanborið við um 58 milljónir árið áður, og nam rekstrarhagnaður um 526 milljónum.

Launakostnaður nam 480 milljónum króna, samanborið við 160 milljónir árið áður, en meðalfjöldi starfsmanna á árinu jókst verulega milli ára, úr 19 starfsmönnum í 36.

Eignir félagsins námu 984 milljónum og ríflega þrefölduðust milli ára. Skuldir námu 154 milljónum og ríflega tvöfölduðust milli ára og eigið fé nærri því fjórfaldaðist milli ára, úr 225 milljónum í 830 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins fór því úr 75,4% í 84,3%.

Bókun ehf. var stofnað árið 2012 og er megintilgangur félagsins þróun og rekstur hugbúnaðar á sviði ferðaþjónustu. TripAdvisor samstæðan eignaðist allt hlutafé í félaginu árið 2018 og nam kaupverð tæplega þremur milljörðum króna að því er fram kemur í ársreikningi móðurfélagsins.

Í ársbyrjun 2019 voru dótturfélög Bókunar ehf, Bokun international ehf. og Bokun Payment Services ehf. sameinuð móðurfélaginu. Framkvæmdastjóri Bókunar ehf. er Hjalti Baldursson, sem átti 45% hlut í félaginu áður en TripAdvisor keypti allt hlutafé.

Í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra með ársreikningnum kemur fram að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi haft mikil áhrif á TripAdvisor samstæðuna, en stjórnendur Bókunar ehf. telji faraldurinn ekki hafa mikil áhrif á félagið þar sem tekjur þess komi ekki beint frá viðskiptavinum heldur í gegnum móðurfélagið, TripAdvisor.