Ákveðið hefur verið á hluthafafundi að slíta félaginu Lönguskerjum ehf., en félagið er alfarið í eigu Giftar fjárfestingarfélags. Ragnheiður Þorkelsdóttir og Valgerður B. Eggertsdóttir voru kjörnar í skilanefnd.

Löngusker var stofnað um áramótin 2006-2007 utan um kaup á 3,75% hlut í Straumi-Burðarási. Gift lagði fram 3,5 milljarða króna í hlutafé og tók ábyrgð á 2,6 milljarða króna láni frá Glitni.

Við hrun bankakerfisins varð þessi eignarhlutur lítils virði, en lánið, sem var fjölmyntalán, hækkaði mjög. Síðasti ársreikningur Lönguskerja er fyrir árið 2011 og það ár varð rétt tæplega milljarðs króna tap á rekstri félagsins og var eigið fé þess neikvætt um 9,3 milljarða króna.

Í skýrslu Lagastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2009 kemur fram að framkvæmdastjóri Giftar, Benedikt Sigurðsson, hafi skrifað bréf í ársbyrjun 2008 þar sem fram komi að skuldir Lönguskerja hafi verið vantaldar um 3,7 milljarða króna. Þórólfur Gíslason var formaður stjórnar móðurfélags Giftar, eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga.