Alríkisdómstóll í Seattle í Washington-ríki í Bandaríkjunum hefur gefið út tilskipun að fengnum tillögum málsaðila í kjölfar málsóknar Generation II á hendur Bledsoe Brace Systems. Hinn 8. apríl 2005, hafði kviðdómur komist að þeirri niðurstöðu að framleiðsla og sala á tveimur vörum af hálfu Medical Technologies Inc., sem starfar undir nafninu Bledsoe Brace Systems, fæli í sér brot á tveimur einkaleyfum í eigu Generation II. Generation II Orthotics og Generation II USA eru dótturfélög Össurar hf. á Íslandi.

Kviðdómurinn kvað upp úrskurð um USD 3.386.145 í bætur til Generation II. Dómstóllinn hefur að auki kveðið upp úrskurð um greiðslu málskostnaðar til Generation II að fjárhæð USD 1.774.292, svo og um greiðslu á USD 1.561.615 í vaxtagreiðslur og nema heildarbætur til félagsins þannig USD 6.722.052. Dómstóllinn hefur einnig kveðið upp úrskurð um varanlegt lögbann á frekari sölu á hnjáspelkum af gerðinni Bledsoe Thruster og Thruster 2.

Stefndi getur áfrýjað úrskurði þessum en á þessari stundu er ekki unnt að segja til um hvort nokkur hluti hinnar tildæmdu fjárhæðar muni innheimtast.