*

laugardagur, 17. ágúst 2019
Innlent 11. mars 2018 13:09

Dótturfélög Arion talin vanmetin

Hægt væri að auka söluvirði Arion banka um tugi milljarða með því að aðgreina Valitor, Vörð og Stefni frá samstæðunni.

Ritstjórn
Til skoðunar hefur verið innan Arion banka að færa Valitor og Vörð í sérstakt eignarhaldsfélag.
Haraldur Guðjónsson

Stöðugleikasamningur Kaupþings og ríkisins gerir ráð fyrir að hægt sé að aðgreina einstakar eignir eða eignarhluti Arion banka frá samstæðunni í aðdraganda og undirbúningi að sölu hlutabréfa í Arion. Er það liður í því að hámarka söluvirði eignarhlutar Kaupþings í Arion banka. 

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins væri hægt að  auka söluvirði Arion banka um tugi milljarða með því að aðgreina greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, tryggingafélagið Vörð og sjóðastýringarfyrirtækið Stefni frá samstæðunni. Ástæðan sé sú að þessi dótturfélög bankans eru öll metin á undirverði á bókum Arion banka, sem þýðir að kaupendur í bankanum myndu fá afslátt af þeim. Þá sé upplausnarvirði bankans miklu hærra en markaðsvirðið.

Sem dæmi er nefnt að Valitor hefur vaxið mikið undanfarin ár með yfirtökum á erlendum félögum og stefnir að því að verða meðal stærstu færsluhirða í Evrópu í ár, en félagið er talið ódýrt í erlendum samanburði. Markaðsvirði allra tryggingafélaga sem skráð eru í kauphöll hérlendis er síðan umfram bókfært virði eigin fjár og þá hafi Stefnir gríðarlegt tekjustreymi. 

Ef dótturfélögin yrðu tekin úr samstæðunni myndi efnahagsreikningur bankans minnka og hefðbundnar kennitölur í bankarekstri taka sig betur út.

Til skoðunar hefur verið innan Arion banka að færa Valitor og Vörð í sérstakt eignarhaldsfélag.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Arion banki Stefnir Valitor Vörður