*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Erlent 20. apríl 2020 13:11

Dótturfélög Norwegian í gjaldþrot

Fjögur dótturfélög sem halda utan um nærri 5 þúsund starfsemenn lággjaldaflugfélagsins á Norðurlöndum fara á hausinn.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Fjögur félög, sem halda utan um flugáhafnir Norwegian á Norðurlöndunum, hafa óskað eftir gjaldþrotameðferð vegna ástandsins sem myndast hefur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar á ferðaþjónustu og flugfélög.

Félögin, sem eru dótturfélög Norwegian Air Shuttle, sjá um bæði flugmenn og aðrir áhafnarmeðlimi í flugvélum félagsins á Norðurlöndum, eru með um 4.700 starfsmenn félagsins innan sinna raða. Þar af eru 1.571 flugmenn, en starfsmennirnir eru frá Svíþjóð, Danmörku, Finland, Spáni, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Ákvörðun stjórna félaganna um að óska eftir gjaldþrotameðferð hefur þó ekki áhrif á þá um 700 flugmenn, og 1.300 aðra áhafnarmeðlimi flugvéla félagsins í Noregi, Frakklandi og Ítalíu. Jacob Schram forstjóri Norwegian segir félagið hafa gert allt sem það gæti til að komast hjá því að taka þessa ákvörðun og félagið hafi þegar óskað eftir ríkisstuðningi í bæði Svíþjóð og Danmörku.

„Við erum að vinna allan sólarhringinn til að komast í gegnum þessa krísu og koma til baka sterkara félag með það að markmiði að koma eins mörgum liðsmönnum aftur í loftið eins og hægt er,“ hefur Reuters eftir Jacob Schram.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er félagið að leitast eftir því við lánadrottna að þeir breyti skuldum félagsins í hlutabréf auk þess að þeir sæki sér meira fé frá hluthöfum. Jafnframt er félagið að reyna að tryggja að það uppfylli skilyði um ríkisstuðning frá norskum stjórnvöldum.

Félögin fjögur heita:

  • Pilot Services Sweden AB
  • Norwegian Pilot Services Denmark ApS
  • Norwegian Capin Services Denmark ApS
  • Norwegian Air Resources Denmark LH ApS

Svíþjóð og Danmörk hafa ekki sömu reglur um uppsagnir eins og í Noregi, svo erfiðara er að draga úr kostnaði á tímum mikils samdráttar eins og nú, segir félagið í yfirlýsingu.

Félagið hefur ekki verið með neitt flug frá Svíþjóð og Danmörku í nokkrar vikur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum. Eina flugið sem félagið er með í dag eru nokkrar ferðir frá norskum flugvöllum í samstarfi við stjórnvöld þar í landi til að viðhalda lágmarksþjónustu.