Þrjú ný sjálfstæð dótturfélög Skeljungs, sem urðu til við uppstokkun á rekstri félagsins, hafa tekið til starfa en fram kemur í tilkynningu að breytingarnar eigi að skerpa enn frekar á áherslum í rekstri. Umrædd félög fá heitin Orkan IS, Skeljungur IS og Gallon og verður þeim stýrt af Árna Pétri Jónssyni, Þórði Guðjónssyni og Már Erlingssyni.

Skeljungur tilkynnti fyrir rúmum þremur mánuðum síðan um tillögu stjórnar að stokka upp reksturinn og breyta tilgangi í samþykktum félagsins „þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi“. Tillögurnar voru samþykktar á hluthafafundi mánuði síðar.

Í tilkynningu Skeljungar segir að nú munu verkefni móðurfélagsins, Skeljungs hf., „í auknum mæli snúa að stýringu eignarhluta í rekstrarfélögunum auk annarra fjárfestinga eftir atvikum“. Ítrekað er að Skeljungur verði áfram skráð félag á hlutabréfamarkaði.

Orkan IS ehf. mun starfa á á sviði þjónustu til einstaklinga, en þar fellur undir rekstur þjónustustöðva Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka Lyfsalans og Lyfjavals, Íslenska vetnisfélagsins og Gló. Félagið mun auk þess fara með eignarhald í félögunum Brauð & Co og WEDO (Heimkaup, Hópkaup, Bland). Forstjóri Orkunnar IS er Árni Pétur Jónsson , sem er jafnframt forstjóri móðurfélagsins.

Skeljungur IS ehf. mun einkum starfa á sviði sölu og þjónustu við fyrirtæki, dreifingu, innkaup og heildsölu á eldsneyti, smurolíum, hreinsi- og efnavörum, áburði sem og öðrum vörum og þjónustuþáttum til fyrirtækja og bænda. Þjónusta og sala til stórnotenda, til útgerða, í flug og verktöku verður einnig hluti af starfseminni. Skeljungur IS er ennfremur umboðsaðili Shell á Íslandi og mun auk þess fara með eignarhald í Barki, EAK og Fjölveri. Framkvæmdastjóri Skeljungs IS er Þórður Guðjónsson , sem hefur starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Skeljungs.

Gallon ehf. mun einkum starfa í rekstri og útleigu á birgðastöðvum um land allt ásamt rekstri birgðastöðva á flugvöllum. Í því felst m.a. móttaka birgðaskipa, afgreiðsla til skipa og í olíubíla. Gallon mun fara með eignarhald í EBK og Tollvörugeymslunni. Framkvæmdastjóri Gallon er Már Erlingsson , sem hefur verið framkvæmdastjóri innkaupa og birgðahalds hjá Skeljungi.

Skeljungur undirritaði á dögunum kaupsamning vegna 12,3 milljarða króna sölu á færeyska dótturfélaginu P/F Magn til Sp/f Orkufélagsins. Eini útistandandi fyrirvari viðskiptanna er nú samþykki samkeppniseftirlitsins í Færeyjum. Skeljungur mun þó endurfjárfesta 23% heildarsöluverðinu og eignast 43% eignarhlut í Sp/F Orkufélaginu með skráningu á nýjum hlutum í félaginu samtals að fjárhæð 2.441 milljón króna auk lánveitinga í tengslum við viðskiptin að fjárhæð 382 milljónum króna.

Skipurit Skeljungs
Skipurit Skeljungs

Nýtt skipurit Skeljungs. Mynd tekin úr tilkynningu félagsins.