Ebay er langt komið í viðræðum um að sameina smáauglýsingasvið félagsins við norska fyrirtækið Adevinta, samkvæmt heimildum Financial Times .

Smáauglýsingasvið Ebay inniheldur fyrirtæki líkt og hið breska félag Gumtree, kanadíska Kijiji, og netmarkaði fyrir ökutæki í Danmörku, Þýskalandi, Ítalíu og Bretlandi, líkt og motors.co.uk.

Samningurinn við Adevinta er talinn hljóða upp á níu milljarða dollara en til samanburðar er markaðsvirði Ebay um 40,8 milljarðar dollarar. Ebay hafði verið með smáauglýsingasviðið sitt í söluferli í nokkra mánuði eftir að virkir hluthafar höfðu sett pressu á fyrirtækið að skera niður reksturinn.

Adevinta var valið fram yfir önnur fyrirtæki þar sem samningur þess innifól hluti í hinu sameinaða félagi. Með því að sameina frekar en að selja eininguna, getur Ebay sparað sér skattagreiðslur.