Noregsdeild SiriusIT sem er í eigu upplýsingatæknifyritækisins ANZA hf. skrifaði nýverið undir mikilvægan samning við NAV um þróun á svokölluðu ?Fellesregisterne? sem er hluti af nýju almennu lífeyriskerfi í Noregi. Í frétt frá Anza kemur fram að verðmæti samningsins er áætlað um NOK 30-50 milljónir eða allt að 500 milljónir íslenskra króna, en endanleg útfærsla á einstöku kerfishlutum liggur ekki fyrir.

NAV (Arbeids-og velferdsforvaltningen) sem er ný stofnun sem varð til við samruna Tryggingarstofnunar og Vinnumálastofnunar, sér um allar almanna bætur, svo sem tryggingarbætur og atvinnuleysisbætur.

Þetta er stórt verkefni og er gert er ráð fyrir yfir 20 starfsmenn SiriusIT muni vinna í verkefninu, en gert er ráð fyrir að þessum verkhluta ljúki haustið 2009. Þessi samningur markar aðeins upphaf þessa verkefnis, því gert er ráð fyrir að næsti verkhluti sem unninn yrði frá hausti 2009 til ársloka 2010 verði enn stærri. Hugsanlegt er því að þegar upp verði staðið mun samningsupphæðin vart vera undir NOK 100 milljónum eða yfir 1 milljarður íslenskra króna segir í fréttinni.


Þar kemur fram að samningur þessi er SiriusIT afar mikilvægur, ekki eingöngu vegna umfangsins heldur ekki síst vegna þess að fyrirtækið hefur náð tiltrú á markaðinum, en það hafði betur í samkeppni við fyrirtæki eins og Accenture, Capgemini, EDB, IBM o.fl.

SiriusIT er nýtt norrænt upplýsingatæknifyritæki sem er í eigu ANZA hf. Með starfsstöðvar í Danmörku, Svíðjóð og Noregi. Hjá fyrirtækinu starfa um 420 manns og er ársvelta áætluð um 5,4 milljarða króna. Reksturinn byggist fyrst og fremst í á þróun og viðhaldi hugbúnaðarkerfa, margþættri ráðgjöf, innleiðingu staðlaðra hugbúnaðarlausna og fjölbreyttri þjónustu á þessu sviði. ANZA eignast jafnframt með kaupunum vörur og hugbúnaðarlausnir, sem eru í notkun á Norðurlöndum og víðar. Jafnframt er fyrirtækið með samstarfssamninga við helstu hugbúnaðarframleiðendur í heimi, svo sem Microsoft og Oracle.


Meðal viðskiptavina eru margar opinberar stofnanir á Norðurlöndunum, þjónustustofnanir, vinnumálastofnanir, skattyfirvöld, eftirlitsstofnanir, lífeyrissjóðir, sveitarfélög og einkafyrirtæki. Starfsemin byggist mikið á því að veita þjónustu í tengslum við sérhæfðar lausnir sem þróaðar hafa verið af fyrirtækinu á undanförnum árum. Auk þess veitir félagið þjónustu sem snýr að stöðluðum lausnum og byggist starfsemin í Noregi t.d. einna helst á ráðgjöf og þjónustu við Oracle e-Business Suite fyrir háskóla, sjúkrahús, þjónustustofnanir og fleiri aðila.