Scanvaegt International, dótturfyrirtæki Marel Food Systems, hlaut í gær heiðursverðlaun Friðriks níunda Danakonungs fyrir framúrskarandi árangur í útflutningsstarfi. Scanvaegt hefur um áratuga skeið lagt mikla áherslu á útflutning og byggt upp þétt net starfsstöðva í öllum heimsálfum segir í frétt Marel.

Það var Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, sem afhenti forstjórum Scanvaegt, Lárusi Ásgeirssyni og Erik Steffensen, heiðursverðlaunin við konunglega athöfn í Fredensborgarhöll í gær. Heiðursverðlaun Friðriks níunda konungs eru útflutningsverðlaun sem afhent eru árlega. Lofaði Hinrik prins árangur Scanvaegt í útflutningi en yfir 90% af starfsemi fyrirtækisins er nú á mörkuðum utan Danmerkur.

?Þetta er mikill heiður og góð viðurkenning á því öfluga starfi sem Scanvaegt hefur unnið á alþjóðamarkaði síðustu ár og verður hvatning til áframhaldandi vaxtar á heimsvísu. Um leið er þetta til marks um hve góðu búi Marel Food Systems tók við þegar fyrirtækið réðst í kaupin á Scanvaegt á síðasta ári,? segir Lárus Ásgeirsson, forstjóri Scanvaegt í tilkynningu.

?Þessi viðurkenning er að auki mjög skemmtilegt dæmi um alþjóðavæðinguna og útrás íslenskra fyrirtækja, því það er ekki á hverjum degi sem dótturfyrirtæki íslensks félags fær konungleg útflutningsverðlaun í Danmörku,? segir Lárus.

Scanvaegt International var stofnað árið 1932 en varð hluti af Marel Food Systems samstæðunni síðastliðið haust þegar Marel keypti alla hluti í þessu rótgróna danska fjölskyldufyrirtæki. Scanvaegt og Marel höfðu þá bæði verið í fararbroddi á heimsvísu í þróun og sölu véla til matvælaframleiðslu. Scanvaegt hafði byggt upp net öflugra starfsstöðva um allan heim frá 1984 en eftir undangengnar skipulagsbreytingar er Scanvaegt hluti af sameiginlegu neti Marel Food Systems sem rekur nú 22 starfsstöðvar í öllum heimsálfum.