Um 360 milljarða króna afgangur var á efnahagsreikningi evrusvæðisins í júní, samanborið við 684 milljarða króna halla í maí. Í tölum sem evrópski seðlabankinn birti í gær kom fram að tölur fyrir maí voru lækkaðar úr 738 milljörðum króna. Um 5,6 billjónir króna fóru inn á fjárfestingamarkaði á evrusvæðinu í júní, en mikið af því fjármagni kom utan evrusvæðisins.

Verg landsframleiðsla jókst um 1,1% í Frakklandi

Verg landsframleiðsla Frakklands jókst um 1,1% á öðrum ársfjórðungi, en á fyrsta ársfjórðungi jókst hún um 0,5%, greiningaraðilar höfðu spáð 1,2% aukningu. Landsframleiðsla í Frakklandi hefur aukist um 1,9% frá áramótum. Innflutningur jókst um 3,3% á öðrum ársfjórðungi, en aukningin var 1,2% á fyrsta fjórðungi. Útflutningur jókst um 1,8%, en jókst um 3,4% á fyrsta ársfjórðungi. Neysluútgjöld jukust um 0,7%, en á fyrsta fjórðungi jukust þau um 0,9%.

Samdráttur í iðnaði á evrusvæðinu

Nýjum pöntunum frá verksmiðjum á evrusvæðinu fækkaði í þriðja sinn á síðustu fjórum mánuðunum. Samkvæmt upplýsingum Eurostat, fækkaði pöntunum um 2,5% frá því í maí, en pantanir hafa aukist um 5,2% síðan í júní 2005. Fækkunin var meiri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir, en þeir höfðu spáð 0,2% fækkun.

Hagnaður eins stærsta hótelrekanda heims eykst um 30%

Hagnaður breska fyrirtækisins Intercontinental Hotels Group PLC var 14,2 milljarðar króna á fyrri helmingi árs, en hagnaður fyrirtækisins var um 10,9 milljarðar á sama tíma í fyrra. Intercontinental Hotels er einn stærsti hótelrekandi í heiminum, með 3.650 hótel á sínum snærum og yfir hálfa milljón herbergja í yfir hundrað löndum.

Ríkisstjórn Bretlands kærð vegna laga um virðisaukaskatt

Kaupmenn hafa kært ríkisstjórn Bretlands vegna lagasetningar sem miðar að því að stemma stigu við margra milljarða punda tapi vegna virðisaukaskattsvika. Löggjöf Evrópusambandsins hefur verið misnotuð með þeim hætti að skattsvikarar hafa fengið endurgreiðslu virðisaukaskatts sem þeir hafa ekki rétt á, en kaupmenn saka ríkisstjórnina um að eyðileggja lögleg fyrirtæki með löggjöfinni. Lög Evrópusambandsins hafa valdið svipuðum erfiðleikum út um alla Evrópu en Bretland hefur þó fengið versta útreið, en 10% af útflutningi Bretlands eru talin tengjast virðisaukaskattsvikum. 23 voru handteknir í síðustu viku vegna skattsvika, en rannsóknir á svikum ganga erfiðlega þar sem ný leið hefur verið fundin til að fela svikin.

800 milljarða yfirtökuboð í Coles

Önnur stærsta smásölukeðja Ástralíu, Coles, segir að fyrirtækið hafi fengið yfirtökuboð frá ónafngreindu fyrirtæki sem stjórn Coles þyki tækifærissinnað og ósanngjarnt. Þeir sem standa nærri Coles segja Kohlberg Kravis Roberts & Co standi að boðinu og að stjórnin sé andvíg yfirtökuboðinu. Talið er að boðið hljóði upp á 800 milljarða króna, en greiningaraðilar telja að ólíklegt sé að KKR fari út í óvinveitta yfirtöku þar sem kostnaður af því yrði meiri en fyrirtækið hefði efni á.