Svo virðist sem dregið hafi úr erfiðleikunum sem íslensku bankarnir hafa staðið frammi fyrir, þó að of snemmt sé fyrir fjárfesta í Landsbankanum [ LAIS ], Glitni [ GLB ] og Kaupþingi [ KAUP ] að anda léttar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umfjöllun í dálkinum The Sceptic hjá Dow Jones Newswires . Fyrirsögnin er “Icelandic Banks Coming In From The Cold“.

Fram kemur að enn séu uppi áhyggjur af ákveðnum þáttum í rekstri bankanna, ekki síst því hversu þandir efnahagsreikningar þeirra séu með hliðsjón af þjóðhagslegum erfiðleikum á Íslandi. Miklar hlutabréfastöður er annað sem fjárfestar ættu að hafa áhyggjur af, að því er segir í greininni.

Rekstur í grundvallaratriðum traustur

„Á heildina litið er rekstur bankanna í grundvallaratriðum traustur. Fjármögnun á þröngum lánsfjármarkaði er minna mál vegna aukinna innlána,“ segir í greininni.

Þá segir að bankarnir komi vel út úr álagsprófi Fjármálaeftirlitsins og að svo virðist, með hliðsjón af skuldatryggingaálaginu, sem áhættan í íslensku bönkunum sé ofmetin.

Í greininni segir að skuldatryggingaálagið hafi byggst á litlum viðskiptum, sem sé ein ástæða þess að íslensk yfirvöld hafi haft orð á grunsemdum um að vafasamir miðlarar hafi verið að hafa óeðlileg áhrif á markaðinn.