Hagnaður þýska flugfélagsins Lufthansa jókst um 58% á öðrum ársfjórðungi, aukin flugumferð vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu er talin eiga stóran þátt í því. Hagnaður flugfélagsins var 16,8 milljarðar króna, en á sama tímabili í fyrra var hagnaður Lufthansa 10,7 milljarðar. Farþegum fjölgaði um 200.000 á tímabilinu vegna heimsmeistaramótsins og er talið að jákvæð áhrif HM muni einnig teygja sig yfir í uppjör þriðja ársfjórðungs.

EMI dregur til baka boð í Warner Music

Plötufyrirtækið EMI dró til baka 230 milljarða boð sitt í samkeppnisaðilann Warner Music í gær, en samkeppnisyfirvöld í Evrópu höfðu lýst því yfir að ólíklegt væri að lagalegar heimildir væru fyrir samrunanum. Fyrir tveimur vikum úrskurðuðu evrópsk samkeppnisyfirvöld að samruni tónlistarfyrirtækjanna Sony og BMG væri óheimill.

Stórkostlega erfið verkefni framundan hjá EADS

Stjórnendur flugvélaframleiðandans EADS, sem framleiðir Airbus þoturnar, sögðu í gær að stórkostlega erfið verkefni væru framundan hjá fyrirtækinu á næstunni, en fyrirtækið tilkynnti í gær að hagnaður fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi hefði lækkað um 9% Vandræðin tengjast bæði framleiðslu á nýrri ofurþotu og seinagangi við afhendingu pantanna til flugfélaga, en fyrirtækið hafði tilkynnt fyrir mánuði síðan að 180 milljarða krónu tap hlytist af töfunum. Tekið var fram í tilkynningunni að fyrirtækið myndi ekki hverfa frá þeirri stefnu að hafa tvo forstjóra og að því væri ekki um að kenna.

Sony þakkar flatskjám fyrir hagnað

Hagnaður japanska raftækjaframleiðandans Sony var 20 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi, en 4,5 milljarða tap var á rekstri fyrirtækisins á sama tíma í fyrra. Eitt ár er nú liðið af þriggja-ára umbótaáætlun Sony og eru áhrifin nú þegar farin að koma í ljós, þá sérstaklega í sölu á flatskjársjónvörpum, en hún hefur aukist um 70% frá 2005.