Það var fastlega búist við því að helstu ráðgjafar Bancroft fjölskyldunnar, sem fer með ráðandi hlut í Dow Jones fjölmiðlafyrirtækinu, myndu senda News Corporation, fjölamiðlarisa í eigu Ruberts Murdoch, endurskoðaðar tillögur í lok gærdagsins um hugmyndir að sérstakri stjórn sem hefði það verkefni að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði Wall Street Journal (WSJ). Hins vegar er enn ekki ljóst hvort þessar tillögur nái að brúa þann ágreining sem ríkir um hvernig farið yrði að því að framfylgja þessum reglum, að því er fram kemur í frétt viðskiptablaðsins WSJ. Fjölskyldan á 24% hlut í Dow Jones en fer með um 62% atkvæða og það er því algjörlega í höndum hennar komið hvort gengið verði að tilboði Murdoch.

Ef News Corp. samþykkir tillögur Bancroft fjölskyldunnar væri mikilvægum áfanga náð fyrir Murdoch. Frá því að fjölmiðlafélag hans lagði fram yfirtökutilboð í Dow Jones í síðasta mánuði, sem hljóðaði upp á fimm milljarða Bandaríkjadala og var um 65% yfir markaðsvirði félagins, þá hafa áhyggjur fjölskyldunnar af ritstjórnarlegu sjálfstæði WSJ helst staðið í vegi fyrir því að Murdoch myndi ná yfirráðum í Dow Jones. Bancroft fjölskyldan hefur hingað til sett það sem skilyrði fyrir því að viðræðunum yrði haldið áfram að náð verði samkomulag um formlegar reglur sem myndu vernda ritstjórnarlegt sjálfstæði WSJ, auk þess sem fjölskyldan hefur talað fyrir því að tryggt verði að fréttadeild blaðsins muni hafa öfluga rödd innan stjórnarinnar.

Vilja ganga lengra en í tilfelli Times
Náist samkomulag á milli Bancroft fjölskyldunnar og Murdoch um þessi tilteknu atriði verður fyrst hægt að fara að ræða önnur málefni - meðal annars um kaupverðið - og í kjölfarið gæti fjölskyldan beðið stjórn Dow Jones um að hefja formlegar yfirtökuviðræður við News Corp.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.