Dow Jones hlutabréfavísitalan jaðrar nú við 20.000 stigin, en þegar þessi frétt er skrifuð stendur hún í 19.959 stigum og hefur þar með hækkað um 0,38% í dag. Á þessu ári hefur hún hækkað um ríflega 14,54%.

Markaðir vestanhafs hafa verið á góðri siglingu í kjölfar kosninganna, en fjárfestar vænta þess að tilvonandi forsetinn muni gera fyrirtækjum auðveldara fyrir.

Frá áramótum hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 10,98% og Nasdaq composite vísitalan um 9,48%. Vísitölurnar hafa náð áður óséðum hæðum, en samt sem áður virðist bjartsýni sjaldan hafa verið meiri.

Stórir sjóðsstjórar hafa lýst yfir áhyggjum, á meðan aðrir hafa hunsað hættumerki.