Hagnaður Sony hríðfellur

Hagnaður japanska raftækjaframleiðandans Sony dróst saman um 94% á öðrum ársfjórðungi fjárhagsárs fyrirtækisins. Hagnaður Sony nam 1,7 milljörðum japanskra jena (972 milljónum króna) á tímabilinu, samanborið við 28,5 milljarða japanskra jena (16,29 milljarða króna) á sama tímabili í fyrri. Mikið tap hlaust af afturköllun fartölvurafhlaða, einnig var mikið tap í tölvuleikjadeild fyrirtækisins sem og í kvikmyndadeild fyrirtækisins.

Hagnaður NYSE þrefaldast

Hagnaður kauphallarinnar í New York þrefaldast á þriðja ársfjórðungi, en mikil aukning í viðskiptum í kauphöllinni og nýleg yfirtaka á Archipelago Holdings eiga þar þátt í. Hagnaður kauphallarinnar nam tæpum 68 milljónum Bandaríkjadala (4,6 milljörðum króna) á tímabilinu, samanborið við 22 milljónir dala (1,5 milljarð króna) á sama tímabili í fyrra. Inni í uppgjörinu var kostnaður vegna yfirtöku Archipelago og fyrirhugaðrar yfirtöku evrópsku kauphallarinnar Euronext, en sá kostnaður nemur 7,7 milljónum Bandaríkjadala (522 milljónum króna).

Vandræði með Boeing 787 Jetliner

Hagnaður bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing nam 694 milljónum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 1,01 milljarð á sama tímabili í fyrra. Efasemdir hafa komið upp um framleiðslu á nýrri þotu Boeing, 787 jetliner, en talið er að hún sé enn of þung. Talsmenn Boeing segja að þotan verði tilbúin á tilsettum tíma í ársbyrjun 2008. Sett hefur verið í gang neyðafjárhagsáætlun sem á að mæta auknum rannsóknarkostnaði vegna þessa.

Hagnaður Shell lækkar um 34%

Hagnaður Royal Dutch Shell dróst saman um 34% á þriðja ársfjórðungi, en ófriður í Nígeríu, minni hagnaður olíuvinnslu og aukinn kostnaður vega þar meira en hækkun olíuverðs. Hagnaður fyrirtækisins nam 5,94 milljörðum Bandaríkjadala (403 milljörðum króna) samanborðið við 9,03 milljarða dala (613 milljarða króna) á sama tíma í fyrra.

Fiat snýr rekstri fyrirtækisins við

Hagnaður ítalska bifreiðaframleiðandans Fiat nam 51 milljón evra (4,38 milljörðum króna), samanborið við 85 milljóna evru (7,3 milljarða krónu) tap á sama tímabili í fyrra. Aukin sala á helsta smábíl fyrirtækisins og söluaukning í Brasilíu eiga þar þátt í. Fiat hefur verið rekið með hagnaði síðustu fjóra fjórðunga, en ekki var uppgefið hvort tap hefði verið á rekstri fyrirtækisins í Evrópu á þriðja ársfjórðungnum, líkt og var á fyrri helmingi árs.

Hagnaður Exxon eykst um 5,7%

Hagnaður olíurisans Exxon Mobil nam 10,49 milljörðum Bandaríkjadala (711,86 milljörðum króna), en það er næst hæsti hagnaður fyrirtækisins á einum fjórðungi. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 9,92 milljörðum Bandaríkjadala (673 milljörðum króna.)

Hagnaður Coca-Cola eykst um 11%

Hagnaður gosdrykkjaframleiðandans Coca-Cola nam 213 milljónum Bandaríkjadala (14,5 milljörðum króna) á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 192 milljónir Bandaríkjadali (13 milljarðar króna) á sama tíma í fyrra. Sölutekjur fyrirtækisins jukust um 6% á tímabilinu, í 5,21 milljarð dala (353,55 milljarðar króna).

Hagnaður Telenor eykst um 72%

Hagnaður norska fjarskiptafyrirtækisins Telenor nam 3,78 milljörðum norskra króna (39,2 milljörðum króna) sem er 72% aukning, en á sama tíma í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 2,2 milljörðum norskra króna (22,8 milljörðum króna). Telenor hefur verið að auka við starfsemi sína bæði í Asíu og Austur-Evrópu, en sala fyrirtækisins hefur einnig verið sterk heima fyrir.